BLOG

Þefskyn
Það er dimmt úti og veturinn genginn í garð með tilheyrandi hríðaveðri. Þá er best að grúska aðeins og í dag er það spurningarskrá um hunda í [Sarpinum](https://www.sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531295) sem varð fyrir valinu. Datt svo inn á frásögn um ratvísi og þefskyn hundanna sem mig langar að vitna hér í. Það er karlmaður, fæddur 1912 sem skrifar: "Sögur um ratvísi hunda munu nær óteljandi en þó skortir mig kunnugleika til að rekja þær hér enda yrði það allt of langt mál. Það er víst að margir sem villtir urðu í hríðarveðrum eða dimmviðrum brugðu á það ráð að láta hundinn ráða ferðinni heim og brást það sjaldan. Áður kom það oft fyrir að fé fennti í stórhríðum og lifði stundum í fönn svo vikum og mánuðum skipti. Þá kom sér vel að eiga hunda er fundið gátu féð og þá áttu sumir bændur og voru þeir þá fengnir til leitar. Þetta voru hundar af íslensku kyni. Þeir gerðu sumir greinarmun á því hvort kindurnar í fönninni voru lifandi eða dauðar. Bóndi einn átti tvo slíka hunda, leitaði annar eingöngu að lifandi fé, en hinn að dauðu. " Læt fylgja mynd frá því í október á þessu ári.

Bækur
Ég elska bækur og þess vegna er ég ótrúlega ánægð að eiga nokkrar bækur sem eru annaðhvort um íslenska fjárhundinn eða sem innihalda efni m. a. um íslenska hunda. Í safninu mínu er **The Iceland dog 874-1956** eftir Mark Watson sem vísar í fullt af gömlum bókum og mér finnst gaman að grafa upp þessar frumheimildir. Sumt er ég búin að finna á netinu (í rafrænum bókasöfnum) og sumt fékk ég í fornbókasölum t. d. **Das unbekannte Island** eftir Wather Heering (1935), **Lýsing Íslands IV** eftir Þorvald Thoroddsen (1920) og **ferðabókina miklu eftir Eggert Ólafsson og Bjarna Pálsson 1752-1757**. Svo er það bókin **Íslenski fjárhundurinn** eftir Gísla Pálsson (1999) en í henni fer hann stuttlega yfir sögu íslenska hundsins og gefur svo yfirlit yfir ræktanda íslenskra fjárhunda á þeim tíma sem bókin kom út. Ræktendurnir lýsa hundunum sínum sem ræktunin þeirra byggist á og er afar fróðlegt að lesa sig í gegnum þetta því í raun er stofninn enn þá frekar lítill á þessum tímapunkti. Einnig eru myndir með helstu litarafbrigðum íslenska fjárhundsins og nafnabanki í bókinni. Bækur eftir Stefán Aðalsteinsson eru áhugaverðar því hann hefur rannsakað uppruna húsdýra á Íslandi og oft er vitnað í hann í nýlegum heimildum. Margt fróðlegt um íslenska fjárhunda má finna í **Íslenzkir Þjóðhættir** eftir Séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1934). Í bókinni **The Dewclaw Puzzle** eftir Moniku D. Karlsdóttur tekur alspora hundar fyrir. Ég er viss um að ýmislegt fleira um íslenska (fjár)hunda leynist í bókahillum hjá mér sem ég er ekki búin að finna. Ég væri einnig þakklát ef ég fengi vísbendingar um frásögn í hinum ýmsu bókum, hafið endilega samband við mig í tölvupósti [email protected].

Markmiðið 2024
Fyrir um það bil ári síðan byrjaði ég að vinna að verkefninu um þjóðahundi Íslendinga og er ánægð með framgöngu þess. Ég er búin að lesa mjög mikið, bæði í bókum og á netinu. Ég hef tengst mörgu fólki, innanlands og erlendis, og ég finn fyrir brennandi áhuga hjá allflestum sem ég hef talað við. Ég er búin að safna sögum og myndum og þarf að halda áfram að finna áhugavert efni í gagnagrunninn. Það gengur frekar hægt að fá svör hjá ljósmyndasöfnum landsins til að geta keypt gamla myndir en ég mun halda áfram að vinna í því. Nú er skammdegi gengið í garð sem er einmitt besti tími árs til að vinna í þessu og næst á dagskrá er að láta setja upp vefsvæði til að birta sögurnar sem ég er búin að fá afhentar. Það er mikil vinna fram undan en markmiðið er sett: opnun sýningarinnar í sumar 2024. Ég hlakka til að koma mínum hugmyndum um sýninguna í framkvæmd og mun að sjálfsögðu halda áfram að fjalla um framgang verkefnisins hér í blogginu ásamt ýmsum vangaveltum og áhugaverðum upplýsingum.

Uppruni íslenska hundsins
Talið er að hundar hafi borist hingað til lands á 9. öld með landnámsmönnum alveg eins og önnur húsdýr og hundar voru til þess að aðstoða við gæslu og smölun fjár, nautgripa og hesta, því girðingar voru ekki til í þessu strjábyltu landi fyrr en á 20. öld. Lítið er skrifað um hunda í íslenskri bókmennt og heldur ekki getið hvernig fjárhundar litu út á landnámsárum en í sögu Ólafs konungs Tryggvasonar er sagt frá hungursneyð á Íslandi árið 990. Lagt var til að lógað skyldi flestum eða öllum hundum í landinu því þeir væru svo margir að bjarga mætti fjölda fólks frá hungurdauða með þeim mat sem fór í þá. En bændurnir fóru ekki að þessum ráðum og hundarnir héldu lífi. Frægasti hundur í Íslendingasögum er sennilega hundurinn Sámur sem Gunnar í Hlíðarendi átti en hann var líklega írskur úlfhundur. Heimildir segja frá því að á miðöldum hafi íslenski hundurinn orðið eftirsóknarverð útflutningsvara, í dálæti sem stofuhundar enskra hefðarkvenna og árið 1570 var íslenskum hundum lýst þannig að þeir væru svo loðnir að naumlega væri hægt að greina höfuð frá búk. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson ferðuðust á Íslandi 1752-57 og í ferðabók þeirra eru góðar lýsingar á íslenska hundinum á þessum tíma, þeir tala um þrjár tegundir hunda: fjárhunda, dýrhunda og dverghunda. Fjárhunda lýsa þeir svona: Þeir eru minni en hinir, loðnir, með granna, stutta fætur. Rófan er hringuð og trýnið stutt og mjótt. Þeir eru smölum til geysismikilla nota. Þeir sækja fé, ef þeim er bent á það, hátt upp í hlíðar og reka það saman í hóp, þar sem smalinn bíður, og rekja kindurnar án þess að bita þær eða meiða á annan hátt. Sumir fjárhundanna eru sérstaklega þétthærðir og hrokkinhærðir. Þeir kallast lubbar og þykja öðrum hundum námfúsari á hvers kyns kúnstir. Forvitnilegt er að spekúlera í uppruna fjárhundanna. Sumar heimildir telja íslenski hundurinn skyldastur norska búhundinum sem kom hingað með landnámsmönnum en vorið 1983 var blóð úr 56 íslenskum fjárhundum kannað til að rannsaka uppruna kynsins. Niðurstöðurnar sýndu greinilegan skyldleika milli íslenska fjárhundsins og finnsks hundakyns, karelísks bjarnarhunds (Karelian Bear Dog). Karelíski bjarnarhundurinn er uppruninn í Rússlandi og er einn svokallaðra Laika-hunda en þessir hundar hafa upprétt eyru og hringað skott. Það er því ljóst að íslenski fjárhundurinn hefur borist hingað frá Noregi en skyldleikinn við karelíska bjarnarhundinn bendir líka til þess að til Noregs hafi hundurinn komið úr austri, rétt eins og íslenska hestakynið því hann er ættaður frá Noregi og á þaðan rætur að rekja austur til Mongólíu. Mynd: Íslenskur fjárhundur sem líklega hefur átt heimili á Suðurnesjum. Úr Ljósmyndasafni Byggðasafnsins á Garðskaga. Höfundur og ártal óþekkt.

Hundabann í Reykjavík í 60 ár
Þjóðfélagið á Íslandi breyttist hratt og mikið á 20.öld. Síldarævintýri hófst með tilkomu velknúinna báta, sjávarþorp mynduðust og þéttbýli fjölgaði. Fólk í sveitum landsins skyldi við búskapinn og flutti í þéttbýli. Gjarnan fylgdu hundarnir húsbændum sínum. Á þessum tíma var enn stundaður búskapur innan bæjarmarka Reykjavíkur og blönduðust aðkomuhundarnir við smalahundana sem þar voru fyrir. Í kjölfar varð mikil fjölgun flækingshunda sem hlupu þar lausir um götur borgarinnar og vorum mörgum til ama. Árið 1910 var hundafjöldinn í bænum orðinn mjög mikill og aðgerðir til að sporna gegn sullaveikinni höfðu ekki enn þá náð takmarki sinu. Þetta tvennt var aðdragandi hundabannsins í Reykjavík. Til þess að bregðast við ástandinu var settur reglugerð nr. 124 frá 26. október 1910 um takmarkanir á hundahaldi í Reykjavík. Reglugerðin kvað um skyldu hundaeigenda til þess að merkja hunda sína með sérstakri ól merktri Reykjavík. Þeir hundar sem ekki báru slíka ól eða töldust til óskilahunda, þeir hundar sem ekki var vitjað innan þriggja daga frá því að þeir voru auglýstir, voru gerðir réttdræpir. Hinsvegar hafði reglugerðin að geyma ákvæði um árlega hreinsun hunda og að sullir skyldu grafnir í jörð. Þegar þessi aðgerðir reyndust hinsvegar árangslausir var lagt fram frumvarp til laga um heimild fyrir bæjarstjórnir til að takmarka eða banna hundahald í kaupstöðum árið 1924. Frumvarpinu var samþykkt og lög nr. 8/1924 um bann gegn hundahaldi í kaupstöðum og kauptúnum til. Á grundvelli þessa nýju laga var reglugerð um hundahald í Reykjavík til. í henni var kveðið á um að á kaupstaðarlóð Reykjavíkur mætti enginn hafa hund nema hafa leyfi fyrir þarfahund. Þá var hver hundur gerður réttdræpur sem fyndist innan lögsagnarumdæmisins og ekki hafði verið veitt heimild fyrir nema hann væri í fylgd með utanbæjarmanni. Lögreglan þurfti að framfylgja banninu og hundruðum hunda lógað í Reykjavík eftir að hundabannið komst á. Flestum hundum var lógað árið 1948 eða 170 hundum. Árið 1953 var 64 hundum lógað og a.m.k. 70 hundum árið 1954. Ólöglegum hundum var því engin miskunn sýnd og þeir teknir og aflífaðir. [Heimild: Vísir](https://timarit.is/page/1180763#page/n11/mode/2up) Árið 1968 var allt búfjárhald innan marka borgarinnar bannað og þar með endaði líka tíminn þarfahundanna. Á svipuðum tíma hófst umræða um framtíð íslenska fjárhundsins en menn töldu að stofninn hér á landi væri allt að því kominn í útrýmingarhættu. Kallað var eftir íhlutun hins opinbera í formi styrkja til hundaræktunar. Árið 1969 voru tvö félög stofnuð utan um hagsmuni hundavina, Hundavinafélagið og Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ). Markmið félaganna var að berjast fyrir löglegu hundahaldi í borginni en meginmarkmið HRFÍ var þó einna helst að standa vörð um íslenska fjárhundakynið með vandaðri ræktun. Tilkoma félaganna hafði mikil áhrif á þróun umræðunnar um hunda og hundahald í þéttbýli borgarinnar. Árin 1983 og 1984 mörkuðu þáttaskil í baráttunni gegn hundabanninu og framfylgd þess af hálfu stjórnvalda. Tvennt ber að nefna í því samhengi. Annars vegar átti sér stað atvik í Reykjavík þegar tveir hundar voru aflífaðir á staðnum án dóms og laga 1983. [Sjá grein í Morgunblaðinu](https://timarit.is/page/1580725#page/n47/mode/2up). Hins vegar var það mál Albert Guðmundssonar fjármálaráðherrans. Fréttamaðurinn Rafn Jónsson kærði Albert fyrir ólöglegt hundahald eftir að hafa lýst hundahaldi hans opinberlega í sjónvarpinu. Rafn hélt því fram að almenningur sætti ofsóknum á meðan yfirstéttin héldi hunda sína óáreitt. Albert var mótfallinn hundabanninu frá upphafi og taldi hann lögin um hundahald úrelt og óréttmæt. Eftir að Albert hafði verið kærður lýsti hann því yfir að hann myndi heldur flytja úr landi en láta tíkina Lucy. Málið fékk mikla athygli bæði [innlendis](https://timarit.is/page/4029413#page/n3/mode/2up) sem [erlendis](https://timarit.is/page/2235862#page/n0/mode/2up). Mál Alberts varð til þess að borgarstjórn Reykjavíkur sá sig knúna til þess að bregðast við að leita lausnar á vandanum. Eftir 60 ár var hundabannið aflétt árið 1984 með _Samþykkt um hundahald í Reykjavík Nr. 385/1984 með síðari breytingum_ ([sjá einnig hér](https://timarit.is/page/1595163#page/n25/mode/2up)). Hundahaldið var enn þá bannað en hægt var að sækja um undanþágu. Það var þó ekki fyrr en 2007 að hundabanninu var með öllu aflétt og undanþágu frá banni á hundahaldi var breytt í leyfisveitingu. [Sjá einnig hér](http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=284570&pageId=4134833&lang=is&q=Hundabanni%20afl%E9tt). Í þessum pósti er bara stiklað á stóru um býsna stórt mál en ég reyndi að draga saman það mikilvægasta. Áhugasömum lesendum vil ég benda á tvær ritgerðir sem fjalla ýtarlega um þetta mál. Martha Elena Laxdal (2014) [Saga hundahalds í Reykjavík 1924-1984](https://skemman.is/bitstream/1946/18784/1/Lokaskil_BAritg_Martha_Saga_hundahalds_%c3%ad_Reykjav%c3%adk_1924_til_1984_HEILDIN.pdf) Guðbjörg Anna Guðbjörnsdóttir (2012) [Hundahald í þéttbýli](https://skemman.is/bitstream/1946/13457/1/Hundahald%20%C3%AD%20%C3%BE%C3%A9ttb%C3%BDli.pdf) Góða samantekt um núgildandi lög og reglugerðir varðandi hundahaldi á Íslandi er hægt að sjá á upplýsingarvefsíðunni [Hundahald.is](https://www.hundahald.is/). Það er líka áhugavert að skoða nútímareglugerðir með tillit til sögu hundahaldsins á Íslandi. Í lokin er vert að nefna að núgildandi lög veita sveitarfélögum mikið sjálfsákvörðunarvald varðandi hundahald. Til dæmis kveður [_Samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað_](https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/reglur-og-samthykktir/annad/samthykkt-um-hundahald-i-akureyrarkaupstad) í 2.gr\_.\_ um að "Hundahald er bannað í Grímsey og mega hundar hvorki dvelja þar né koma í heimsóknir." [Sjá einnig hér](https://www.ruv.is/frettir/innlent/hundabann-i-grimsey) um stjórnsýslukæru vegna málsins sem hefur verið vísað frá.

Sullaveiki og hreinsun hunda
Sullaveiki hrjáði Íslendinga í margar aldir og var um tíma einn af mannskæðustu sjúkdómum landsins. _Það er alkunnugt, að Ísland hefur lengi verið talið versta sullaveikisbælið í Norðurálfu og þó víðar væri leitað_ - skrifar Guðmundur Magnússon í [Yfirlit yfir sögu sullaveikinar á Íslandi, Reykjavík 1913](https://timarit.is/page/4911631#page/n0/mode/2up). Talið er að sullaveikin hafi upphaflega borist til landsins með sýktum hundum sem fluttir voru inn frá Vesturlöndum, einkum frá Þýskalandi. Elstu fornbókaheimildir geta þess að um 1200 hafi sjúkdómsmynd sullaveiki þekkst bæði í mönnum og skepnum. Sjúkdómsvaldur er lirfustig nokkurra undirtegunda _Echinococcus_ bandorms sem nota millihýsil (grasætur; kindur og kýr), sem innbyrðir egg bandormsins, og smitast svo yfir í lokahýsil (hundar) þegar sá étur líffæri millihýsilsins sem er sýkt með bandormsbelgjum fullum af lirfum. Heimild: [visindavefur.is](https://www.visindavefur.is/svar.php?id=62075) Danski læknirinn Harald Krabbe kom til landsins árið 1863 og dvaldi á Íslandi við rannsóknir á bandormum í hundum ásamt Jóns Finsen, héraðslæknis á Akureyri. Komust þeir að því að 28% íslenskra hunda væru sýktir. Á þessum tíma voru Íslendingar um 70 þúsund talsins en áætlaður hundafjöldi var á sama tíma 15 – 20 þúsund, eða einn hundur á hverja 3-4 íbúa. Ályktaði Krabbe að útbreiðsla og algengi sullaveikinnar á Íslandi skýrðist einkum af því að hér voru, miðað við höfðatölu, mun fleiri hundar en annars staðar (Guðmundur Magnússon, 1913). Sullaveikin gat dregið fólk og skepnur til bana og áætlað var að fimmti hver Íslendingur var smitaður af sulli. Taldi Krabbe að besta leiðin væri að fækka hundum og fræða íslenska alþýðu um eðli sullaveikinnar og leiðir til varnar smithættu. Fylgdi þessum niðurstöðum [_Tilskipun um hundahald 1869_](https://timarit.is/page/4911674#page/n43/mode/2up) til að fækka hundum og _Lög um hundaskatt 1890_ en það dugði ekki til að bæta ástandið. Það var til siðs á mörgum bæjum að hundum var leyft að sleikja aska fólksins, komast í sláturúrgangi, valsa um tún og hlöður, liggja í fóðurheyi sauðfjár um nætur og lepja neysluvatn úr ílátum manna. Upp úr aldamótum komu hundalækningar til sögu. Hundar voru safnaðir saman til hreinsunar á ákveðnum dögum og þeim gefið ormalyf. Hundahreinsun fór fram í húsi eða kofa, þar sem gólf og veggir voru steinsteyptir eða úr öðru þéttu efni, sem auðvelt var að hreinsa. Svelta þurfti hundana í sólarhring fyrir inngjöfina. Það þurfti að passa að hundarnir ældu ekki eftir inngjöfina annars þurfti að endurtaka hana og þegar þeir voru búnir að hreinsa sig með miklum niðurgangi á meðan þeir voru bundnir í kofanum í allt að sex klukkutímum þurfti að baða hundanna í sérstöku hreinsuefni áður en þeir fengu að fara heim til sín. Þessari aðferð var beitt lengi í sumum sveitarfélögum, sjá grein í [Dýraverndaranum](https://timarit.is/page/4954468?iabr=on#page/n29/mode/2up/search/averndarinn) frá 1. febrúar 1978. Myndin er tekin úr þeirri grein. En hundahreinsunin eins harkaleg og hún var, varð til þess að sullaveikinni var útrýmt á Íslandi á 20. öld og finnst því veikin ekki lengur á Íslandi. Í dag þarf að framkvæma hundahreinsun með ormalyfi vegna vöðvasullsbandormsins en sem betur fer eru aðferðirnar öðruvísi en áður fyrr. Sjá [nánar](https://www.mast.is/is/um-mast/frettir/frettir/bandormahreinsun-hunda) á vef MAST.

Vaskur frá Þorvaldsstöðum - fyrirmynd merkisins HRFÍ
Vaskur frá Þorvaldsstöðum var einn af átta hundum sem Mark Watson keypti á Íslandi og flutti til Kaliforniu á 6. áratug til að rækta íslenska fjárhunda svo þeir yrðu ekki aldauða. Áhugasömum er bent á þessa [grein úr Morgunblaðinu 1958](https://timarit.is/page/3284932#page/n5/mode/2up). Fljótlega eftir að hundarnir komu til Kaliforníu kom upp hundapest og drápust sumir hundana. Þeir sem lifðu eignuðust afkvæmi og virtust ekki hafa blandast öðrum kynjum. Watson flutti seinna til Englands og tók hundana með sér og lét halda ræktuninni áfram. Vaskur lifði hundapestina af og flutti með Watson til Englands þar sem hann gerði garðann frægan á Crufts sýningu 1960 þegar hann varð BOB (besti hundur tegundar) sjö ára gamall. Í [grein frá February 1960](https://drive.proton.me/urls/4JV6CQVNYM#xVGAiQfZfkSL) sem er mjög líklega úr blaðinu [Our dogs](https://www.ourdogs.co.uk/subindex/home.php) er haft eftir dómaranum Mrs. W. Barber: "Vaskur completely won over me as a good looking medium sized dog, sound and with the essentials of his breed standard clearly defined, he was a happy and friendly dog to meet and appeared to be enjoying his outing." Vaskur var dæmdur:"Novice 1" og "Open 1". Hér er hægt að sjá [ræktunarmarkmið](https://drive.proton.me/urls/XPXMMA6CHG#mjGHVKziw0wn) þess tíma sem Vaskur hefur líklega verið dæmdur eftir. Árið 1969 var Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) stofnað á Hótel Sögu í Reykjavík en 29 áhugamenn um ræktun íslenska fjárhundsins stóðu að stofnun félagsins. Eitt markmið þess var að vernda og rækta íslenska fjárhundinn og var fyrsta stjórnarsamþykktin sú að undirbúa skráningu á sérkennum íslenska fjárhundsins. Mynd af Vaski frá Þorvaldsstöðum var síðan fyrirmynd í merki [Hundaræktarfélags Íslands](http://www.hrfi.is/). Félagið fékk seinna aðild að alþjóðahundaræktarsamtökunum FCI og hundaræktarsamtökum Norðurlandanna NKU og er í dag samstarfsvettvangur eigenda og áhugafólks ýmissa hundakynja. [Deild íslenska fjárhundsins (DÍF)](https://www.dif.is/DIF/index.php) var stofnuð 1979 og starfar innan HRFÍ sem ein stærsta deild félagsins. Merki deildarinnar er það sama nema að Vaskur horfir í hina áttina. Vonandi fær Vaskur að vera í friði í merki félagsins um ókomna tíð sem fulltrúi þjóðarhunds Íslendinga. Mynd af Vask úr bók Mark Watsons _The Iceland dog 874-1956._

Merkishundar
Í grúskinu mínu um sögu íslenska fjárhundsins hef ég rekist á margar áhugaverðir frásagnir um hunda og fólk. Ég er að reyna að fá einskonar strúktur í allt efnið sem ég er búin að lesa og safna til að koma því svo á framfæri á þessari síðu og einnig í sýningunni. Til þess er ég að lesa margt oftar en einu sinni til að átta mig betur á öllum samhengjum. Til dæmis datt ég núna áðan aftur í [grein um Kát frá Keldum](http://hundalifspostur.is/2016/01/27/ur-sami-katur-fra-keldum/) en þar stendur: _"Kátur frá Keldum Ól. 11-68 andaðist 22. des. 1978. Þessi merkishundur, sem flestir eða allir Ólafsvallahundar rekja ætt sína til, var fæddur á Keldum í október 1959 og var því á tuttuguasta aldursári er hann lést. Hann var fyrstu ár ævi sinnar á Írafelli í Kjós, en kom til Sigríðar og Kjartans á Ólafsvöllum árið 1964 og var þar síðan til dauðadags. Kátur frá Keldum var mikill eftirlætishundur á þessu stóra heimili og naut þar ýmissa forréttinda, en þar var jafnan margt hunda. Síðustu tvö árin var honum nokkuð farið að hraka, sjón og heyrn biluð og hann var orðinn giktveikur. Kátur var mjög fallegur hundur þegar hann var upp á sitt besta. Rauðgulur, með hvítan blett í hnakka, hvítar lappir og ljós í rófu. Hann var stór og myndarlegur, e.t.v. ívið of langur ef nokkuð var, byggingin annars prýðileg. Geðslag var sérstaklega gott og um gáfur hans efaðist enginn, sem til þekkti. Af honum er kominn mikill ættbogi. Foreldrar Káts voru Klói frá Sellátrum og Pollý frá Keldum, en til þeirra merkishunda eiga allir núlifandi íslenskir hundar ætt sína að rekja. G.S."_ Myndin af Kát sem fylgir greininni minnti mig á myndina sem ég notaði í blogg-póstinum um Strút, Kol og Mark Watson. Sú mynd er af Koli, pabba Strúts. Ég fór að leita í efninu sem Salín sendi mér um Strút og þar er meðal annars afrit af ættbók Strúts. Þar sá ég að Kolur, pabbi Strúts er ekki undan Kát heldur er mamma Strúts undan Kát frá Keldum. Sú tík hét Píla frá Ólafsvöllum og mamma hennar hét Táta. Við nánari skoðun kemur í ljós að Táta, Kátur og mamma Kols, sem hét Skotta frá Sætúni, voru alsystkini. Ég mæli með að skoða myndina hér fyrir ofan. Foreldrar þeirra voru, eins og fram kemur, Klói frá Sellátrum og Pollý frá Keldum. Klói átti fjögur afkvæmi með Pollý en Pollý átti samkvæmt [gagnagrunni DÍF](https://www.dif.is/hundarnir/hundar_grunnur_einstaklingur.php?id=4582) líka Snotru. Snotra var undan Trygg en hann var undan alsystkynunum Kát og Skottu. Snotra er ekki skráð í [gagnagrunni ISIC](http://www.islenskurhundur.com/Dog/Details/5097) frá því sem ég best veit. Þarna sést vel áskorunin á þeim tímum í því að framrækta íslenskan fjárhund úr mjög litlum hundastofn og hreint út sagt ótrúlegt afrek að þetta tókst. Ég ákvað að láta ættbók Strúts (með þakklæti til Salínar) fylgja þessum pósti en myndir af Klóa og Pollý er hægt að finna í [gagnagrunni ISIC](http://www.islenskurhundur.com/Dog/Details/4965).

Svei þér! þú, Íslands eyrnasperrti hundur!
Við tókum á móti hóp breskra ferðamanna í gær í okkar vinsæla prógrammi Horses&Heritage. Eins og oft áður sýndu gestirnir hundunum ekki minni áhuga og hestunum og fengu þeir að sjálfssögðu kynningu á þjóðarhundinum. Hópurinn var búinn að koma við í Glaumbæ og höfðu fengið upplýsingar um breska aðalsmanninn Mark Watson og björgunaraðgerðir hans varðandi gamla bæinn. Ég útskyrði fyrir fólkinu hvaða hlutverk Watson átti í björgun íslenska fjárhundsins og þau voru aldeilis hissa á því að tengundin er ekki meira þekkt í Bretlandi en raun ber vitni. Gat ég þá sagt þeim frá því að íslenski fjárhundurinn var í sérstöku uppáhaldi hjá fyrirfólki Bretlands á 15.öld og að William Shakespeare hafði meira en að segja nefnt hann í leikritinu „Henry V.“ sem skrifað var um 1600: **Pish for thee Iceland Dog! Thou prick-ear´d cur of Iceland!** **Svei þér! þú, Íslands eyrnasperrti hundur!** Þetta eru sennilega ekki fallegustu orð sem hafa verið skrifuð um íslenska fjárhundinn en þrátt fyrir það eru þau heimild um að hundategund frá okkar afskekktu eyju í Atlantshafinu var þekktur í Bretlandi á þeim tíma. Þessum bresku ferðamönnum fannst mjög áhugavert að fræðast um íslenska fjárhundinn og tengingu hans við þeirra eigin heimaland.
Er íslenski fjárhundur vinnuhundur?
Ég var að velta fyrir mér hvað fólk notar íslenska fjárhunda mikið sem vinnuhunda. Ég setti spurninguna fram á facebooksíðu Deild Íslenska fjárhundsins um daginn og fékk rosalega mikil viðbrögð á stuttum tíma. Það virðist að hundurinn er talsvert notaður í kringum sauðfé. Þeir taka virkan þátt í smalamennsku á haustin og spara þeir mönnum og hestum mörg hlaup í afréttum landsins. Það er bæði hægt að senda þá langt frá sér og láta þá gelta við hlið sér. Íslenski fjárhundurinn er rekstrahundur og heldur túnum sem og skógarreitum hreinum af sauðféi í ákveðnum radíus og er þar með ómetanlegur fyrir marga. Hundurinn fær líka notkun í kringum hross. Sumir hundar sækja hesta úr haganum og reka þá til eiganda sinna. Sagt var frá hundum sem veiða mýs á borð við ketti og er það vel þegið á sveitabæjum. Umræða átti sér stað um vinnueðli íslenska fjárhundsins sem er mjög frábrugðið smalaeðli í Bordercollie (BC) hundum. Á meðan BC hundar eru að safna féi með því að hlaupa í kring og þegja að jafnaði á meðan, er íslenski fjárhundurinn að nota geltið við vinnuna. Þetta eðli hefur hentað (og hentar ennþá) við íslenskar aðstæður og landslag. Eflaust vilja flestir sem eiga íslenskan fjárhund í borginni að hann gelti sem minnst og er hér að finna ákveðna togstreitu á milli eðli hundsins sem átti rétt á sér í þúsund ár og væntingar til hundsins í nútímasamfélagi. En enginn vill eiga gjammara - það eru allir sammála um og eru ræktendur íslenska fjárhundsins með óumdeilda ábyrgð þegar kemur að því að velja hunda til undaneldis. Arnþrúður Heimisdóttir sem hefur ræktað íslenska fjárhunda síðan 1998 undir nafninu Fljóta-ræktun kom með mjög fróðlegt innlegg um kenningar sínar varðandi sögu og ræktun íslenskra hunda í gegnum árin. Ég fékk leyfi fyrir því að birta innslag hennar hér: **\--** **Til hvers höfðu Íslendingar hunda:** 1\. Til að forða pínulitlum krökkum, að forða þeim frá því að ganga af göflunum og sturlast úr hræðslu og einmannaleik, krakkar sem áttu að vera smalar á nóttu sem degi, dauðhrædd við sögur um að tröll og draugar og annað dræpu þau. Vera vinir þeirra (enda eru þeir kannski bestu hundar í heimi til að efla fólki traust og kjark, vinalegir og kjarkaðir). 2\. Til að reka kindur úr túnum, vera virtual fence, enda byggði fólk bæi sína í miðjum bestu túnunum, svo hengu hundarnir heima við bæ og ráku fé úr túnum allan sólarhringinn. Ég heyrði í útvarpsþætti um daginn, Illuga lesa upp úr ferðasögu útlendings frá því 18 hundruð og eitthvað, þar sem hann lýsir því hvernig allir bændur þá eiga ca. 5 hunda sem reka úr túnum og hreinsa út ráfandi fé og hesta (enda voru engar girðingar á þeim tíma). Ég las í Landbúnaðarsögunni að það var gríðarleg áhersla upp úr landnámi að girða og girða, með steingörðum, girða af afrétti og tún og alls kyns. Allir karlmenn voru skyldaðir samkvæmt lögum til að vinna við þetta einn mánuð á ári. Svo um árið 1200 var þetta tekið úr lögum, allt of mikil vinna. Mín kenning er að þá fóru menn að rækta þessa heimaríku hunda sem reka úr túnum, enda urðu flestir/allir steingarðarnir fljótlega ónothæfir. 3\. Til að smala í göngum og þessháttar, líka við vetrarbeit þegar fullorðnir menn héldu fé að útibeit á sinu í snjó og alls kyns slæmu árferði, líka hjálpa krökkunum/smölunum að reka hjörðina í burt og heim (annars vegar hjarðir af lömbum, hins vegar hjarðir af fé sem var mjólkað). En ég efast um að þeir hafi nokkurn tímann sótt fé eins og borderar, amk. hef ég ekki orðið vör við að neinn Íslendingur í dag geri það, en kannski getið þið bent á dæmi um annað. 4\. Að hjálpa fólki til að rata heim í fárviðrum, bæði fólki á ferðalögum sem lenti óvænt í fárviðri, og vetrarsmölum sem lentu í sama, með kindur. 5\. Að hjálpa fólki að finna fé sem hafði grafist í snjó í fárviðrum. **\--** Ég þakka öllum sem tóku þátt í umræðunni sem var bæði fróðleg og þörf. Við megum aldrei gleyma fyrir hvað hundurinn var notaður í aldanna rás sem mótaði eðli hundsins sem við þekkum í dag. Ég persónulega vil sjá fleiri íslenska fjárhunda í sveitum landsins. Sem þjóðarhundur Íslendinga ætti hann að vera bæjarprýði á mörgum ef ekki öllum sveitabæjum. Að vera sveitahundur útilokar ekki að hundurinn geti líka staðið sig vel sem sýningarhundur. Það eru nokkur dæmi um íslenska fjárhunda sem hafa hlotið meistarastig og meistarartitla á sýningum HRFÍ sem standa sig einnig mjög vel í smölun og rekstri búpenings. Verum stolt af þessum vinalega og duglega þjóðarhundi okkar og vinnum gegn fordómum að um gagnslausa gjammara sé að ræða. Sýnum ábyrgð í ræktun og berum virðingu fyrir eðli hundsins. Þjálfum hann vel og leyfum honum að vinna samkvæmt eðli ef tækifærið gefst!

Um Strút, Kol og Mark Watson
Það er mjög áhugavert og gaman að vinna að svona verkefni. Ég finn fyrir miklum áhuga og ekki síður þörf á því að safna saman upplýsingum og sögum um íslenska fjárhundinn. Það þarf að varðveita þá og gera þá aðgengilega til framtíðar. Hundurinn er þjóðararfur Íslendinga, og hann hefur fylgt þjóðinni í gegnum súrt og sætt í meira en 1000 ár. Það er ábyrgð okkar nútímafólks að viðhalda vitneskju um sögu hans. Ég rakst á facebook póst í sambandi við Dag Íslenska fjárhundsins þar sem kanadísk kona sýndi mynd af hundinum Strút. Strútur var fyrsti íslenski fjárhundurinn í Kanada sem vitað er um í nútímanum en hann kom þangað 1969. Ég komst í samband við Salín Guttormsson, konuna sem póstaði myndinni og við höfum skrifast talsvert á á undanförnu. Salín hefur nýlega gefið út grein um sögu Strúts sem birt var í "Lögberg - Heimskringla" og fékk ég leyfi til að birta greinina hér á vefsíðunni (sem verður væntanlega í haust). Faðir Salíns hafði verið í bréfasamskiptum við Mark Watson 1970 en hann reyndi að kaupa bókina "The Iceland dog" sem var því míður orðin ófáanleg. Watson svaraði honum að bókin væri uppseld og ekkert eftir af prentuninni en sendi honum ljósrit af helstu köflum bókarinnar ásamt uppfærðum formála. Watson skrifar í bréfinu sínu að um það bil 50 íslenskir fjárhundar væru til í Bretlandi og þeir viðurkenndir af breska hundaræktarfélaginu. Breska hundaræktunarfélagið hafði viðkennt tegundina 1905. Hins vegar er tegundin ekki viðurkennd nú til dags þar sem of fáir Íslenskir fjárhundar eru til í Bretlandi. Watson skrifar einnig í bréfinu að hann hafði nýlega flutt tvo hunda til Englands sem hann keypti frá Sigríði Pétursdóttir á Ólafsvöllum. En Strútur var einnig úr ræktun Sigríðar og læt ég hér fylgja mynd af Kol, faðir Strúts. Sigríður Pétursdóttir tók myndina 1969. Salín leyfði mér að sýna þessa mynd og ég þakka henni kærlega fyrir að segja mér frá Strút og bréfasamskiptum þeirra Watsons og faðir hennar. Það er ómetanlegt fyrir mig að fá þessar frásagnir.

Hátíðardagur
Þjóðarhundur Íslendinga á daginn í dag! Í ræktunarmarkmiðinu fyrir íslenskan fjárhund stendur: "Íslenski fjárhundurinn er þjóðarhundur Íslendinga. Hann er afkomandi hunda sem bárust til landsins þegar á landnámsöld. Hundurinn varð bændum ómissandi við smölun og yfirsetu og vinnueiginleikar hans hafa aðlagast landslagi, búskaparháttum og harðri lífsbaráttu Íslendinga á liðnum öldum. Íslenski fjárhundurinn er norrænn smalahundur, tæplega meðalstór og kröftugur, með upprétt eyru og hringað skott. Séð frá hlið mynda lengd og hæð hundsins rétthyrning. Mildur, greindarlegur og brosleitur svipur, öruggt og fjörlegt fas er einkennandi fyrir íslenska fjárhundinn. Hárafar er með tvennu móti, ýmist snöggt eða loðið. Báðar gerðir eru þéttar og mjög veðurþolnar. Kynjamunur er greinilegur á milli rakka og tíkar." Áhugasamir geta haldið áfram að lesa í [FCI-Ræktunarmarkmið nr: 289](https://www.dif.is/UmTegundina/raektunarmarkmid_islenskur_fjarhundur_islenska_18-07-2018.pdf) Við kíktum að venju við í Glaumbæ í dag og glöddum og fræddum gesti safnsins um þjóðargersemina okkar! Til hamingju með daginn!

Mark Watson - bjargvættur íslenska fjárhundsins
Mark Watson er mörgum Íslendingum kunnugur. Afrekum Watsons eru ekki gerð skil á í stuttum bloggpósti og hann mun fá meira pláss á vefsíðunni og á sýningunni von bráðar en ég ætla samt að draga saman nokkra punkta því nú styttist í Dag íslenska fjárhundsins þann 18. júlí, sem er fæðingardagur Mark Watsons. Mark Watson var fæddur 18. júlí 1906 í Bretlandi. Fjölskylda hans var mjög auðug og átti búgarð í Skotlandi og sumarbústað í Austurríki. Hún bjó glæsilega í London. Watson var vel menntaður og stundaði nám við bestu skóla Bretlands og einnig á meginlandinu. Hann talaði reiprennandi frönsku og góða þýsku. Hann ferðaðist víða um heim og fékk áhuga á Íslandi strax í æsku. Honum dreymdi um ævintýri á Íslandi og kom í sína fyrstu ferð til Íslands sumarið 1937. Árið á eftir fór hann ríðandi um landið. Á þessum ferðum tók hann ljósmyndir og hreyfimyndir sem sýndar voru í London og á heimssýningunni í New York árið 1939. Watson var Íslendingum örlátur. Hann gaf þjóðminjasafninu á annað hundrað vatnslitamyndir eftir Collingwood, breskann málara sem ferðaðist um Ísland í lok nítjándu aldar, auk annarra listaverka sem hann færði safninu að gjöf. Sumarið 1938 kom hann í Glaumbæ í Skagafirði og tók ástfóstur við gamla bæinn. Watson vildi kaupa Glaumbæ, og endurreisa í upprunalegri mynd og gera að safni. En bærinn var ekki falur. Þegar hann var kominn heim ákvað hann að senda tvöhundruð sterlingspund til Íslands, svo hefja mætti viðgerðir á Glaumbæ. Watson var mikill hundamaður og var einn fyrstur manna til að gera sér grein fyrir að íslenska fjárhundakynið var að deyja út. Hann ákvað því að bjarga kyninu. Hann lét safna saman hundum sem fundust með hið dæmigerða útlit íslenska fjárhundsins og keypti þá. Síðar voru þeir sendir til Kaliforníu þar sem hann bjó um árabil á búgarðinum Wensum kennel í Nicasio. Árið 1957 gaf Mark Watson út bók um íslenska hundakynið. Bókin heitir _The_ _Icelandic dog 874 – 1956_ og í henni telur Watson upp öll gögn sem hann fann um íslenska fjárhundinn. Watson aðstoðaði Sigríði Pétursdóttir frá Ólafsvöllum (sem mun fá ýtarlegri umfjöllun á þessum vettfangi síðar) við að flytja íslenska fjárhundshvolpa úr hans ræktun frá Englandi til Íslands til að hefja mikilvægt ræktunarstarf. Sigríður Pétursdóttir stofnaði ásamt fleirum Hundaræktarfélag Íslands árið 1969. Markmið félagsins var verndun og ræktun íslenska fjárhundakynsins. Á stofnfundinum var samþykkt að sýna Íslandsvininum Mark Watson þá virðingu að gera hann að heiðursstofnfélaga, þar sem hann hefur haft frumkvæði að verndun íslenska fjárhundsins, auk þess sem hann skrifaði bók um hundategundina. Í byrjun árs 1973 gaf Watson, Íslendingum dýraspítala með öllum búnaði. Mark Watson lést á heimili sínu í London í mars 1979. Áhugasömum er bent á smárit Byggðasafns Skagafjarðar [Mark Watson og Glaumbær](https://www.glaumbaer.is/static/files/Skjol/vi-mark-watson-og-glaumbaer.pdf) og greinina [Mark Watson og dagur íslenska fjárhundsins](http://hundalifspostur.is/2015/11/30/mark-watson-og-dagur-islenska-fjarhundsins/) eftir Þórhildi Bjartmarz til að fræðast meira um hann.

Listaverk til heiðurs íslenska fjárhundsins
Ég fékk ungu listakonuna Josefina Morell, sem búsett er í Borgarfirðinum til að gera útilistaverk handa mér til heiðurs íslenska fjárhundsins. Eftir nokkrar vangaveltur ákváðum við að hún myndi gera höggmynd eða einskonar prófilmynd úr líparítstein. Viðeigandi steinn fannst loksins í Bæjargilinu í Húsafelli. Steinninn er fjólublár og mjög fallegur. Mynd af Sóma var síðan fyrirmynd og útkoman er glæsileg. Josefina kom og afhenti mér verkið í fyrradag. Steininum var komið fyrir á vegg torfréttarinnar til að byrja með en staðsetningin verður endurskoðuð við tækifæri. Ég er rosalega ánægð með verkið og hver veit, kannski er þetta eina höggmynd af íslenskum fjárhundi sem til er á Íslandi? Allavega finnst mér vera kominn tími til þess að eiga minnismerki um þjóðarhundinn!

Gamlar myndir
Eitt af því sem ég ætla að gera í þessu verkefni er að setja upp gagnagrunn með myndum, gömlum og nýjum, svarthvítum og lituðum. Myndir segja alltaf sögu um samband manns og hunds. Ég er búin að fá nokkrar myndir úr ljósmynda- og byggðasöfnum og einnig nokkrar úr einkaeign. Myndin sem fylgir þessum pósti var tekin 1960 í Þernuvík í Ísafjarðadjúpi og sýnir hundinn Brand og dreng að nafni Gunnars. Það er Gilla frá Hnífsdalsræktun sem sendir mér þessa mynd og áhugaverð saga um Brand fylgir henni. Hún verður sögð síðar. **Ef þú átt myndir kæri lesandi, sem þú ert tilbúin/n að láta af hendi í gagnagrunninn, endilega hafðu samband við mig!**

Kirkjuferðir
Það finnst margt áhugavert á [Sarpur.is](https://www.sarpur.is/), sem er menningarsögulegt gagnasafn. Meðal annars er stórt safn um þjóðhætti og þegar leitað er eftir efni um hunda kemur margt forvitnilegt upp. Eins og frásögn um kirkjuferðir í gamla daga: "...Það var varla hægt að segja að kirkjuferðir væru nein undantekning frá því að þá væru hundar með í för. Til kirkju komst oft margt hunda bæði viljandi og óviljandi og voru oft þar til mikilla leiðinda, t.d. komust inn í kirkjugarðinn og fóru þar í áflog sem oft var vani þeirra sem áður sagði. Sumir sluppu inn í sjálfa kirkjuna meðan á messu stóð og skriðu undir bekkina. Ekki leist þeim þó að vera þar inni. Það var ekki trútt um að mesta andaktin færi af sumum þegar meðhjálparinn kom, tók í hnakkadrambið á hundinum og dró hann ýlandi út úr kirkjunni..." [Sarpur/Þjóðhættir. Karlmaður, fd. 1912, Kirkjubæjarklaustri](https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=542101)

Bókagjöf
Ég hef verið svo heppin að eignast bókina "THE ICELAND DOG 874-1956" eftir Mark Watson nýlega en bókin er algjör fjársjóður fyrir áhugafólk um sögu íslenska fjárhundsins eins og mig. Bókin var gefin út árið 1957 en í henni telur Watson upp öll gögn sem hann fann um íslenska fjárhundinn frá landnámsárunum til "dagsins í dag" eins og stendur í formálanum sem var skrifaður af Watson árið 1956. Watson kostaði sjálfur útgáfu bókarinnar og ágóða sölunnar gaf hann Dýraverndunarfélagi Reykjavíkur á sínum tíma. Talið er að bókin var gefin út í 500 eintökum sem er að sjálfsögðu ekki mjög mikið og þess vegna er bókin mjög sjaldgæf og verðmæt í dag. Bókin er gjöf til mín fyrir sýninguna um sögu íslenski fjárhundsins en það er Jørgen Metzdorff sem gaf mér hana eftir að hann frétti af verkefninu mínu. Jørgen ræktar íslenska fjárhunda í Danmörku ([Naskur ræktun](https://www.naskur.dk/)) og er mikinn áhugamaður um sögu hundsins. Hann hefur rannsakað bókina mjög vel og haldið fyrirlestur um hana í tengslum við Dag íslenska fjárhundsins. Þar sem Jørgen átti þrjú eintök af bókinni ákvað hann að gefa mér eitt eintak fyrir sýninguna. Er ég honum mjög þakklát fyrir það! Bókin er ómissandi fyrir sýninguna um íslenska fjárhundinn. [Hægt er að fletta í gegnum bókina hér.](https://drive.proton.me/urls/MSZXKPRSBW#NJ3Xh5blzdvJ)

Lifandi listaverk
Þann 15. febrúar 1994 flutti Guðni Ágústsson, alþingismaður, tillögu um að auka veg og virðingu íslenska fjárhundsins: **"Íslenski fjárhundurinn er þjóðararfur og þjóðargersemi Íslendinga, hann er lifandi listaverk sem okkur ber að varðveita."** Alþingi ályktaði honum að skipa nefnd til að gera tillögur um aðgerðir til að vernda íslenska fjárhundinn og hreinrækta stofninn. [Tillöguna er hægt að lesa hér](https://www.althingi.is/altext/117/s/0588.html). Friðjón Þórðarson, fyrrverandi ráðherra og sýslumaður, sá það glettna bæði í greinargerðinni og málflutningi Guðna og dró efni ræðunnar saman í vísu sem hljómar svona: **  Ó,íslenski fjárhundur,lifandi listaverk** **  með ljómandi augu sem höfða til réttlætiskenndar.** **  Með hringaða rófu og hálsband um loðna kverk,** **  Nú heiti ég á þig að komast til allsherjarnefndar.** ** ** ## **Gleðilega þjóðhátíð!**

Samfélagsmiðlar
Til að byggja upp tengslanet og kynna verkefnið er óumflýjanlegt að vera sýnilegri á samfélagsmiðlum. Facebook síða var nýlega set upp þegar blogg síðan fór í loftið og mun ég færa þar inn fréttir um verkefnið og síðan um sýninguna. Instagram reikningurinn er meira hugsaður fyrir daglega hundalífið á Lýtingsstöðum og geta áhugasamir fylgst með okkur þar. Við hlökkum til að tengjast sem flestum.

75 ára afmælishátíð í Glaumbæ
Það var blásið í glæsilega afmælishátíð í Glaumbæ þann 29 maí, en þá voru 75 ár liðin frá því að Mark Watson gaf peninga til að varðveita bæinn. Byggðasafn Skagfirðinga er þar með elsta byggðasafn Íslands - þökk sé þessarar peningagjafar Watsons. Mark Watson er, eins og kom fram í fyrri færslu, líka kallaður bjargvættur íslenska fjárhundsins. Það gaf tilefni til þess að koma með íslenska fjárhunda á afmælishátíð og vöktu 12 hundar mikla athygli og kátínu hjá gestum og gangandi.

Lógóið
Mér finnst nauðsynlegt að byrja sem fyrst að kynna verkefnið en til þess þarf fallegt merki. Sómi átti að vera í merkinu enda er hann upphaf alls sem viðkemur íslenska fjárhundinum hér á bæ. Þar sem hann og torfhúsin á Lýtingsstöðum eru óaðskiljanleg var ákveðið að hafa þau líka með. Í verkið fékk ég unga konu frá Bandaríkjunum sem á og ræktar íslenska fjárhunda vestan hafs og gerir hundatengt markaðsefni ([greyfindesign.com/home-dog](https://www.greyfindesign.com/home-dog)). Kristine Olivia hannaði merkið fyrir mig eftir þessari mynd af Sóma.

Styrkurinn
Í desember 2022 var mér tilkynnt að verkefninu mínu Þjóðarhundur Íslendinga yrði veittur styrkur úr uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra upp á 1,6 milljón. Ég er mjög þakklát því, vegna þess að styrkurinn gerir mér kleift að geta unnið verkefnið og byrjað var strax í janúar 2023 við undirbúning. Framundan er rannsóknarvinna, vinna að heimasíðu verkefnisins, markaðsaðgerðir, skrif texta og söfnun sagna um hunda. Ég mun nýta þetta ár til að undirbúa sýninguna og stefni á að opna hana um sumarið 2024.

Þjóðarhundur Íslendinga
Ég byrjaði að sökkva meira og meira í sögu íslenska fjárhundsins. Ekki bara til að kynna hann betur fyrir gestina mína heldur var ég farin að falla gjörsamlega fyrir þessari tegund. Sem menningarfræðingur blundar í mér forvitni og áhugi fyrir öllu sem er íslenskt og einstakt. Haustið 2022 tók ég þá ákvörðun um að sækja um styrk hjá SSNV til að setja upp sýningu um sögu íslenska fjárhundsins. Á meðan ég skrifaði umsóknina mótaði ég hugmyndina um þessa sýningu. Ég kom mér í samband við fólk sem ég vissi að hefur unnið undanfarna áratugi við að styrkja ímynd íslenska fjárhundsins. Mig langar að nefna Þórhildi Bjartmarz sem hefur safnað miklu efni um hundinn, haldið fyrirlestra um viðfangsefnið og haldið út vefsíðunni [hundalifspostur.is](https://hundalifspostur.is/) þar sem margt áhugavert er að finna. Þórhildur tók vel á móti mér og sýndi mér öll gögnin sem hún hefur safnað að sér. Við spjölluðum margt og þessi fundur með henni gaf hugmyndinni minni meiri dýpt og ég er henni mjög þakklát fyrir þessa innsýn og velvild í minn garð.
Dagur íslenska fjárhundsins
Post Covid - Þegar lífið var komið aftur á eðlilegan stað mætti ég með Sóma á hundasýningar og með Sóma og Hraundísi á viðburði í tengslum við dag íslenska fjárhundsins (18.júlí ár hvert) í Glaumbæ. Þangað koma gjarnan hundaeigendur á Norðurlandinu saman. Í því samhengi er vert að nefna Mark Watson sem gjarnan er kallaður bjargvættur íslenska fjárhundsins (meira um það síðar) en hann er líka bjargvættur Glaumbæjar þar sem hann gaf rausnarlega peningaupphæð til að varðveita gamla bæinn. Fæðingardagurinn hans er 18.júlí sem var valinn sem dagur íslenska fjárhundsins. Dagur íslenska fjárhundsins er haldinn hátíðlega síðan 2016 og Deild íslenska fjárhundsins innan HRFÍ heldur utan um hann hér á Íslandi.

Horses & Heritage
Frá því um sumarið 2021 tóku Sómi og Hraundís þátt í móttöku ferðamannahópa og urðu strax mjög vinsæl í prógramminu okkar sem við köllum Horses & Heritage. Í þessu prógrammi kynnum við sögu og eiginleika íslenska hestsins, torfhúsin sem byggingararf íslendinga og íslenska fjárhundinn. Oft stelar hundarnir senunni og leika kúnstirnar sínar upp á torfhúsinu. Það er alveg óhætt að segja að hundarnir slá alltaf í gegn hjá ferðamönnunum.
Hraundís
Í apríl 2021 eignaðist ég yndislega tík, hana Huldudals Hraundísi, kölluð Skottu í daglegu tali. Þegar ég tók við henni var hún 9 mánaða og illa slösuð. Hún fór í aðgerð þar sem þurfti að fjarlægja mjaðmakúluna. Aðgerðin og bataferlið gekk vonum framar og eftir fimm mánuði var hún næstum því óhölt. Við þurfum að fylgjast vel með henni en hún lifir góðu lífi í dag. Hraundís er að mörgu leyti allt öðruvísi en Sómi og það er alltaf skemmtilegt að fylgjast með þeim. Hún tekur að sér hlutverkið að fylgjast vel með hrossunum og er dugleg að smala þeim heim og inn í hús með tilheyrandi gelti á meðan Sómi er meira fyrir sauðfé.

Heimsfaraldur
Í mars 2020 skall heimsfaraldurinn á og fólk var beðin um að halda sig heima. Myndir af Sóma glöddu vini og vandamen um allan heim á þessum skrítnum tímum endar hafði ég nógan tíma til að mynda og setja á samfélagsmiðla. Örfáir ferðamenn sóttu okkur heim þetta örlagaríka ár en Sómi heillaði alla sem komu á hlað. Unnið var að ýmsum markaðsaðgerðum fyrir starfsemi okkar á Lýtingsstöðum sumarið 2020 og lék Sómi hlutverk í þeim öllum. Smátt og smátt kviknaði hugmynd um að gera meira úr viðfangsefni íslenska fjárhundsins en fyrst vildi ég kynna mér betur umhverfi hundsins á Íslandi. Ekki auðvelt í miðjum heimsfaraldri en samfélagsmiðlar gáfu tækifæri til að kynnast öðrum eigendum og ræktendum íslenska fjárhundsins á Íslandi. Einnig var mikið um fræðslu í gegnum netfyrirlestra.

Íslands Sómi
Í desember 2019 bættist íslenski fjárhundurinn Reykjavalla Íslands Sómi í fjölskylduna okkar. Á undan honum höfum við átt Border Collie blendinga, sem voru einnig yndislegir hundar. Fljótlega eftir að Sómi kom heim varð okkur ljóst að hann væri gersemi og gæti nýst í þá uppbyggingu sem búin er að eiga sér stað hér á Lýtingsstöðum í nokkur ár: að kynna íslenska menningararfleifð. Sómi uppgötvaði þakið á torfhúsunum okkar sem útsýnisstað alveg eins og hundar gerðu í gamla daga. Sómi og torfhúsin urðu strax vinsælasta myndefnið á komandi mánuðum.