Frá hugmynd til veruleika - Fyrsta sumarið í Sögusetrinu

Hero Image

28.08.2025Evelyn Ýr

Sögusetur Íslenska fjárhundsins hefur nú verið opið í rúmlega þrjá mánuði og því kominn tími til að líta aðeins yfir hvernig fyrsta sumarið hefur gengið. Í stuttu máli hafa viðtökurnar farið langt fram úr væntingum. 

Mér þykir óskaplega vænt um hve Íslendingar hafa verið duglegir að heimsækja sýninguna og sýnt bæði þjóðarhundinum og sögu hans mikinn áhuga. Fjöldi fallegra (fjár)hunda kom með eigendum sínum í heimsókn – og voru þeir auðvitað velkomnir líka.

Það sem stóð upp úr hjá erlendum gestum var að fæstir þeirra vissu yfirhöfuð af tilvist íslenska fjárhundsins. Mér er óhætt að segja að það hafi tekist vel að kynna þjóðarhundinn fyrir hundruðum erlendra gesta sem komu fyrst og fremst til að upplifa hinn íslenska hest. Margir voru mjög hissa á að hafa aldrei heyrt af þessari séríslensku hundategund. En það komu líka gestir sem þekktu hana vel, áttu sjálfir íslenska fjárhunda og jafnvel rækta þá í sínu heimalandi.

Í sumar hafa átt sér stað mörg skemmtileg og áhugaverð samtöl – og jafnvel augnablik sem gáfu gæsahúð. Mig langar sérstaklega að nefna heimsókn Rafns Jónssonar, sem árið 1984 kærði þáverandi fjármálaráðherra Albert Guðmundsson fyrir ólöglegt hundahald eftir að hafa opinberað hundahaldið í sjónvarpi. Rafn var ekki síður hissa að sjá nafnið sitt á sýningunni en ég var að fá hann í heimsókn.

Önnur eftirminnileg heimsókn var sú Patricia Putmans í tengslum við Dag íslenska fjárhundsins. Patricia, eða Pat, vann á sínum tíma með Mark Watson og aðstoðaði hann bæði við að flytja íslenska fjárhunda til Bandaríkjanna árið 1955 og við að safna efni í bókina The Iceland Dog 874–1956. Að hitta þessa hressu konu, sem lét draum sinn rætast með því að koma til Íslands og heimsækja Glaumbæ á 84. aldursári, verður mér ógleymanlegt.

Nú styttist í haustið og sumarið er að líða undir lok. Fram undan eru haustverk og langur vetur sem ég hlakka til að nýta í áframhaldandi rannsóknarvinnu og til að safna fleiri sögum. Markmið ársins var að opna sýninguna – og það tókst afar vel. Nú tekur við næsta skref: að byggja setrið enn frekar upp.

Sögusetrið verður opið daglega út september, en eftir það eftir samkomulagi.

Mynd: Patricia Putman heldur á bókinni The Iceland Dog fyrir framan upplýsingaspjald um Mark Watson á Degi íslenska fjárhundsins, 18. júlí 2025.


HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Sími: +354 893 3817
[email protected]

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin