Hundaþúfa

Hero Image

16.11.2025Evelyn Ýr

Í dag, 16.nóvember, er haldið up á Degi Íslenskrar tungu á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Jónas var afkastamikill rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi (16. nóvember 1807 – 26. maí 1845).

Í tilefni þess dags langar mig að segja frá hundatengdu orði en í spurningaskrá #66 í Sarpinu er spurt eftir orðinu Hundaþúfa.

Svarendur eru fæddir á milli 1896 og 1927.

"Hundaþúfur voru vel kunnar. Voru fleiri nöfn notuð um þær? Lýsið þessu. Kannast menn við orðtakið: ,,Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér"?

Allir viðmælendur svöruðu á svipaðan hátt eins og þessi kvenmaður, fæddur 1905:

Í þá daga voru allir ríðandi eða gangandi á ferð og hundar með. 
Strýtumyndaðar þúfur voru víðs vegar með reiðgötum, þær voru kallaðar hundaþúfur. Ég hefi ekki heyrt önnur nöfn á þessum sérstæðu þúfum. Þegar hundar þurftu að leggja af sér, stukku þeir að þessum sérstæðu toppmynduðu þúfum. Grasið var dökkgrænt og gróskumikið vegna áburðarins frá seppa. Hestar, kýr og kindur gerðu lítið af því að gæða sér á grasi hundaþúfna.

Einn kvenmaður, fæddur 1908 svaraði: Sem barn var undirrituð hrædd við hundaþúfur, því þær voru kamrar hundanna.

Þessi vísa kom fram í svörunum frá karlmanni, fæddur 1904:

Hundaþúfan er höldum kunn
hér á landi víða.
Eðlishvötin á þeim runn
læt ég hana bíða.

Um orðtakið ,,Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér" var oftast svarað á þann hátt:

Ég kannast vel við að hafa heyrt það, þetta er nú meiri hundaþúfan, var sagt um það sem var smátt og ómerkilegt eða lítilfjörlegt. (Kvenmaður, fæddur 1912)

Alþekkt er orðtækið: "Nú þykir mér hundaþúfan vera farin að hreykja sér." Var það oft sagt um montna menn sem þóttust miklir en öðrum þótti sem þeir hefðu af litlu að státa. (Kvenmaður, fæddur 1907)

Karlmaður, fæddur 1899 svarar:

Orðið hundaþúfa hef ég ávallt heyrt notað í niðrandi merkingu, s.s. "það er sitt hvað hólastóll eða hundaþúfa".

Önnur orðtök um hundaþúfur minnist ég ekki að hafa heyrt eða séð í bók. Þó má vera að ég hafi einhvern tíma heyrt það notað í svívirðingarskyni um ...fjárlegt torfhús, af vanefnum reist t.d. "þessi bölvuð hundaþúfa".

Ég enda þessa hundaþúfu-samantekt á degi Íslenskrar tungu með vísu eftir Steingrím Thorsteinsson (1831-1913), rithöfundur, þýðandi og skáld:

Hundaþúfan hreykti kamb
hún var nóg með þurradramb,
skamma tók hún hefðar fjall,
hafðu skömm þú ljóti kall.
Fjallið þagði, það ég skil, það
viss'ei að hún var til.


Hafa samband

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
+354 893 3817
[email protected]

Fylgdu okkur

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin