Sögusetur Íslenska fjárhundsins hefur nú verið opið í rúmlega þrjá mánuði og því kominn tími til að líta aðeins yfir hvernig fyrsta sumarið hefur gengið. Í stuttu máli hafa viðtökurnar farið langt fram úr væntingum. Mér þykir óskaplega vænt um hve Íslendingar hafa verið duglegir að heimsækja sýninguna og sýnt bæði þjóðarhundinum og sögu hans mikinn áhuga. Fjöldi fallegra (fjár)hunda kom með eigendum sínum í heimsókn – og voru þeir auðvitað velkomnir líka. Það sem stóð upp úr hjá erlendum gestum var að fæstir þeirra vissu yfirhöfuð af tilvist íslenska fjárhundsins. Mér er óhætt að segja að það hafi tekist vel að kynna þjóðarhundinn fyrir hundruðum erlendra gesta sem komu fyrst og fremst til að upplifa hinn íslenska hest. Margir voru mjög hissa á að hafa aldrei heyrt af þessari séríslensku hundategund. En það komu líka gestir sem þekktu hana vel, áttu sjálfir íslenska fjárhunda og jafnvel rækta þá í sínu heimalandi. Í sumar hafa átt sér stað mörg skemmtileg og áhugaverð samtöl – og jafnvel augnablik sem gáfu gæsahúð. Mig langar sérstaklega að nefna heimsókn Rafns Jónssonar, sem [árið 1984 kærði þáverandi fjármálaráðherra Albert Guðmundsson](https://www.fjarhundur.is/is/blog/hundabann-i-reykjavik-i-60-ar) fyrir ólöglegt hundahald eftir að hafa opinberað hundahaldið í sjónvarpi. Rafn var ekki síður hissa að sjá nafnið sitt á sýningunni en ég var að fá hann í heimsókn. Önnur eftirminnileg heimsókn var sú Patricia Putmans í tengslum við Dag íslenska fjárhundsins. Patricia, eða Pat, vann á sínum tíma með Mark Watson og aðstoðaði hann bæði við að flytja íslenska fjárhunda til Bandaríkjanna árið 1955 og við að safna efni í bókina [_The Iceland Dog 874–1956_](https://www.fjarhundur.is/is/blog/bokagjof). Að hitta þessa hressu konu, sem lét draum sinn rætast með því að koma til Íslands og heimsækja Glaumbæ á 84. aldursári, verður mér ógleymanlegt. Nú styttist í haustið og sumarið er að líða undir lok. Fram undan eru haustverk og langur vetur sem ég hlakka til að nýta í áframhaldandi rannsóknarvinnu og til að safna fleiri sögum. Markmið ársins var að opna sýninguna – og það tókst afar vel. Nú tekur við næsta skref: að byggja setrið enn frekar upp. Sögusetrið verður opið daglega út september, en eftir það eftir samkomulagi. Mynd: Patricia Putman heldur á bókinni _The Iceland Dog_ fyrir framan upplýsingaspjald um Mark Watson á Degi íslenska fjárhundsins, 18. júlí 2025.
Til hamingju með daginn, kæru eigendur og vinir íslenska fjárhundsins! 18.júlí er afmælisdagur Mark Watsons, sem við gjarnan köllum bjargvætt íslenska fjárhundsins. Í ár er dagurinn haldinn hátíðlegur í tíunda sinn um allt land, en einnig á erlendum vettvangi. Samfélagsmiðlar fyllast af myndum af fallegum hundum og sýna hversu fjölbreytt tegundin er þegar kemur að litaafbrigðum og feldgerð. Í tilefni dagsins eru haldnir viðburðir og fyrir utan hátíðarhöld í Árbæjarsafni í Reykjavík má sérstaklega nefna viðburðinn hér í Skagafirði, sem nefnist „Mark Watson dagur“. Watson tengist ekki aðeins björgun íslenska fjárhundsins, heldur einnig uppbyggingu gamla bæjarins í Glaumbæ, sem var fyrsta byggðasafn Íslands. Við munum byrja hátíðarhöldin hér hjá okkur á Lýtingsstöðum, þar sem við eigum von á gestum með hunda eftir hádegi. Frítt verður inn á Sögusetrið í dag. Síðan færum við okkur yfir í Glaumbæ til að gleðja gesti þar frá kl. 16–18. Einnig er von á heiðursgesti sem ég er mjög spennt að hitta. Viðstödd verður Patricia Putman, sem hefur helgað líf sitt hundarækt og þjálfun, þar sem íslenski fjárhundurinn hefur átt sérstakan sess. Pat er formaður fræðslunefndar dómara og fulltrúi AKC fyrir samtök íslenska fjárhundsins í Ameríku (ISAA). Hún vann með Mark Watson á fimmta áratugnum að bók hans „The Iceland Dog 874–1956“ og átti einnig stóran þátt í vali og innflutningi íslenskra hunda til Bandaríkjanna. Pat mun segja nokkur orð um Mark Watson og íslenska fjárhundinn í tilefni dagsins. Streymt verður frá erindi Pat á Facebooksíðu Byggðasafns Skagfirðinga. Hundarnir okkar verða skreyttir í dag með íslenskum borða festum í hálsólina! Mig langar að enda á fallegri tilvitnun sem ég las á samfélagsmiðlum í gær, en hún er úr Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness **„Hvernig sem allt veltist, eiga menn þó að minnsta kosti minningarnar um hunda sína, þær getur enginn tekið frá okkur!“** Njótið dagsins!
Núna eru liðin fjórar vikur síðan við opnuðum Sögusetur Íslenska fjárhundsins og óhætt er að segja að viðtökurnar hafa verið frábærar. Margir hafa nú þegar skoðað setrið, bæði í skipulögðum hópferðum og einnig sem einstaklingar. Við finnum fyrir þakklæti Íslendinga fyrir að þjóðarhundurinn og sagan hans fái rými og stað til að vera sýnileg og varðveitt. Nokkrir erlendir ferðamenn hafa komið sérstaklega til að sjá sýninguna, því þeir eiga – og jafnvel rækta – íslenska fjárhunda í sínu heimalandi. Daglega koma ferðamenn til okkar til að upplifa íslenska hestinn og eru oft mjög hissa þegar þeir komast að því að það er ekki bara til íslenskur hestur heldur líka íslenskur hundur. Margir þeirra nýta tækifærið til að skoða setrið fyrir eða eftir reiðtúrinn og gestabókin fyllist af hrósandi orðum. Við höfum fengið frábæra umfjöllun í íslenskum og erlendum miðlum. Morgunblaðið birti flotta grein strax eftir opnun (sjá mynd). Félagsrit HRFÍ, Hundasamur, kom með grein [(sjá hér)](https://www.hundasamur.is/greinar1/sogusetur-islenska-fjarhundsins-opnar-a-lytingsstodum-i-skagafirdi). SSNV, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, [fjallaði um opnunina](https://www.ssnv.is/is/moya/news/sogusetur-islenska-fjarhundsins-opnad-a-lytingsstodum-i-skagafirdi) en verkefnið fékk tvisvar styrk úr Uppbyggingarsjóði NV. [Héraðsfréttablaðið Feykir](https://www.feykir.is/is/frettir/sogusetur-islenska-fjarhundsins-opnad) birti grein um Sögusetrið og [Bændablaðið](https://www.bbl.is/lif-og-starf/lif-og-starf/sogusetur-islenska-fjarhundsins-opnad) var auðvitað líka með puttann á púlsinum. Heimir Karlsson tók viðtal við mig í morgunútvarpinu á Bylgjunni í gær og hægt er að [hlusta á þáttinn hér.](https://www.visir.is/k/94352390-d34e-43c0-b937-fcb00a56dc0d-1750669179232) Fréttamaður frá RÚV á Norðurlandi er væntanlegur í dag. Á samfélagsmiðlum birtist [umfjöllun frá Markaðsstofu Norðurlands](https://www.facebook.com/MarkadsstofaNordurlands/posts/pfbid0DzUmGx9fZnJGKqM8BcduTRFu5rpaMxximPZ3aV1FGtwQgmZhHKA88c9SCwcw3xdKl) og á [„Iceland Route 1 and Beyond“.](https://www.facebook.com/IcelandRoute1andBeyond) Danska félag eigenda íslenska fjárhundsins birti [grein í félagsritinu sínu](https://drive.proton.me/urls/4K4MD1ZK0G#8C2hSnMiweAU) og grein hjá Kennel Club í Bretlandi er væntanleg. Við erum afar þakklát fyrir viðtökurnar og alla umfjöllun um Sögusetur Íslenska fjárhundsins okkar. Sómi, Hraundís og Fönn taka alltaf vel og brosandi á móti öllum gestum og fréttamönnum og gera sitt til að standa vörð um ímynd þjóðarhundsins. **Sögusetrið er opið alla daga frá klukkan 9 til 18.**
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Sími: +354 893 3817
[email protected]