Hero Image

Íslenski Fjárhundurinn

Uppgötvaðu sögu íslenska fjárhundsins og endurræktun hans sem þjóðarhund Íslands. Fylgdu okkur fram að opnun sýningarinnar tileinkaða þessara einstöku tegund. Hjálpaðu til við að dreifa boðskapnum um þessa merku tegund og taktu þátt í að styrkja nærveru hennar á alþjóðavettvangi.

BLOGÞefskyn

Þefskyn

Það er dimmt úti og veturinn genginn í garð með tilheyrandi hríðaveðri. Þá er best að grúska aðeins og í dag er það spurningarskrá um hunda í [Sarpinum](https://www.sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531295) sem varð fyrir valinu. Datt svo inn á frásögn um ratvísi og þefskyn hundanna sem mig langar að vitna hér í. Það er karlmaður, fæddur 1912 sem skrifar: "Sögur um ratvísi hunda munu nær óteljandi en þó skortir mig kunnugleika til að rekja þær hér enda yrði það allt of langt mál. Það er víst að margir sem villtir urðu í hríðarveðrum eða dimmviðrum brugðu á það ráð að láta hundinn ráða ferðinni heim og brást það sjaldan. Áður kom það oft fyrir að fé fennti í stórhríðum og lifði stundum í fönn svo vikum og mánuðum skipti.  Þá kom sér vel að eiga hunda er fundið gátu féð og þá áttu sumir bændur og voru þeir þá fengnir til leitar. Þetta voru hundar af íslensku kyni. Þeir gerðu sumir greinarmun á því hvort kindurnar í fönninni voru lifandi eða dauðar. Bóndi einn átti tvo slíka hunda, leitaði annar eingöngu að lifandi fé, en hinn að dauðu. " Læt fylgja mynd frá því í október á þessu ári.

Bækur

Bækur

Ég elska bækur og þess vegna er ég ótrúlega ánægð að eiga nokkrar bækur sem eru annaðhvort um íslenska fjárhundinn eða sem innihalda efni m. a. um íslenska hunda.  Í safninu mínu er **The Iceland dog 874-1956** eftir Mark Watson sem vísar í fullt af gömlum bókum og mér finnst gaman að grafa upp þessar frumheimildir. Sumt er ég búin að finna á netinu (í rafrænum bókasöfnum) og sumt fékk ég í fornbókasölum t. d. **Das unbekannte Island** eftir Wather Heering (1935), **Lýsing Íslands IV** eftir Þorvald Thoroddsen (1920) og **ferðabókina miklu eftir Eggert Ólafsson og Bjarna Pálsson 1752-1757**. Svo er það bókin **Íslenski fjárhundurinn** eftir Gísla Pálsson (1999) en í henni fer hann stuttlega yfir sögu íslenska hundsins og gefur svo yfirlit yfir ræktanda íslenskra fjárhunda á þeim tíma sem bókin kom út. Ræktendurnir lýsa hundunum sínum sem ræktunin þeirra byggist á og er afar fróðlegt að lesa sig í gegnum þetta því í raun er stofninn enn þá frekar lítill á þessum tímapunkti. Einnig eru myndir með helstu litarafbrigðum íslenska fjárhundsins og nafnabanki í bókinni. Bækur eftir Stefán Aðalsteinsson eru áhugaverðar því hann hefur rannsakað uppruna húsdýra á Íslandi og oft er vitnað í hann í nýlegum heimildum.  Margt fróðlegt um íslenska fjárhunda má finna í **Íslenzkir Þjóðhættir** eftir Séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili (1934).  Í bókinni **The Dewclaw Puzzle** eftir Moniku D. Karlsdóttur tekur alspora hundar fyrir. Ég er viss um að ýmislegt fleira um íslenska (fjár)hunda leynist í bókahillum hjá mér sem ég er ekki búin að finna.  Ég væri einnig þakklát ef ég fengi vísbendingar um frásögn í hinum ýmsu bókum, hafið endilega samband við mig í tölvupósti [email protected].

Markmiðið 2024

Markmiðið 2024

Fyrir um það bil ári síðan byrjaði ég að vinna að verkefninu um þjóðahundi Íslendinga og er ánægð með framgöngu þess. Ég er búin að lesa mjög mikið, bæði í bókum og á netinu. Ég hef tengst mörgu fólki, innanlands og erlendis, og ég finn fyrir brennandi áhuga hjá allflestum sem ég hef talað við. Ég er búin að safna sögum og myndum og þarf að halda áfram að finna áhugavert efni í gagnagrunninn. Það gengur frekar hægt að fá svör hjá ljósmyndasöfnum landsins til að geta keypt gamla myndir en ég mun halda áfram að vinna í því. Nú er skammdegi gengið í garð sem er einmitt besti tími árs til að vinna í þessu og næst á dagskrá er að láta setja upp vefsvæði til að birta sögurnar sem ég er búin að fá afhentar. Það er mikil vinna fram undan en markmiðið er sett: opnun sýningarinnar í sumar 2024.  Ég hlakka til að koma mínum hugmyndum um sýninguna í framkvæmd og mun að sjálfsögðu halda áfram að fjalla um framgang verkefnisins hér í blogginu ásamt ýmsum vangaveltum og áhugaverðum upplýsingum.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]