Þegar haustar

Hero Image

28.10.2025Evelyn Ýr

Þegar haustar er gott að taka stöðuna. Það hefur staðið til í dálítinn tíma, en nú virðist veturinn vera kominn. Snjór kingur niður í flestum landshlutum, þó minnstar snjókomur séu hér fyrir norðan.

Myndin hér fyrir ofan lýsir vel því sem gerðist á haustdögum. Í septemberútgáfu tímaritsins "Kennel Gazette" frá breska hundaræktafélaginu The Kennel Club birtist þriggja blaðsíðna grein með viðtali við mig og fullt af myndum af opnun Söguseturs Íslenska fjárhundsins. Þetta er frábært, sérstaklega í ljósi þess að áhugi á íslenska fjárhundinum hefur aukist verulega í Bretlandi eftir að tegundin var viðurkennd af félaginu á þessu ári. Nú er loksins hægt að rækta og sýna íslenska fjárhunda í Bretlandi.

Í september tók Darren Adam frá RÚV English Radio aftur viðtal við mig. Í þetta sinn fengum við að ganga saman um Sögusetrið og ræða það sem fyrir augu bar. Hægt er að hlusta á viðtalið hér. Á meðan ég man eftir því, var innslag í kvöldfréttum RÚV í sumar sem ég átti eftir að segja frá. Hægt er að horfa á fréttina hér.

Rannsóknarfélagi minn í Danmörku, Jørgen Metzdorff (www.naskur.dk), færði mér höfðinglega gjöf: annað eintak af bókinni hans Mark Watson, "The Iceland Dog 874-1956" sem ég er mjög þakklát fyrir. Einnig fékk ég bókina "Hundurinn minn" eftir Watson sem ég hef leitað lengi að og bókina "Íslenski fjárhundurinn" eftir Gísla Pálsson. Jørgen gaf mér líka frímerki í safnið mitt. Takk, Jørgen. Þessar gjafir koma sér vel!

Ég skrifaði grein fyrir þýska tímarit félagsins "Deutsch-Isländische Gesellschaft e.V Köln" og "Freunde Islands e.V. Hamburg" um upphaf og framkvæmd verkefnisins um íslenska fjárhundinn. Við það tilefni tók ég saman tölur og komst að því að um 2.500 manns hafa heimsótt Sögusetrið frá opnun í maí til loka septembers. Þetta er bara nokkuð gott. Talan samanstendur af fólki sem kom sérstaklega til að sjá sýninguna, sem og þeim sem komu óvænt við og skoðuðu sýninguna á leið í hestaleigu eða meðan á dvöl þeirra hjá okkur stóð. Allir rútuhópar fá aðgang að sýningunni. Kannski skoðuðu ekki allir sýninguna mjög ítarlega, en ég hef allavega kynnt íslenska fjárhundinn fyrir öllum þessum fjölda.

Í síðustu viku komu um 70 manns í heimsókn í tilefni uppskeruhátíðar ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Það var gaman að kynna Sögusetrið sem nýjung fyrir kollegum okkar á Norðurlandi.

Hvað er framundan? Að klára nokkur verk í húsinu, sem fékk nafnið Hraunkot (í höfuðið á tíkinni minni, Hraundísi), setja upp fleiri myndir og búa til möppu með öllum blaðagreinum frá því í sumar. Einnig þarf að yfirfara annað sem mér hefur áskotnast í sumar. Ég er með fleiri hugmyndir til að bæta sýninguna, en það krefst mikillar vinnu. Ég segi frá því þegar þar að kemur.


HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Sími: +354 893 3817
[email protected]

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin