Dagur Íslenska fjárhundsins 2025

Hero Image

18.07.2025Evelyn Ýr

Til hamingju með daginn, kæru eigendur og vinir íslenska fjárhundsins!

18.júlí er afmælisdagur Mark Watsons, sem við gjarnan köllum bjargvætt íslenska fjárhundsins. Í ár er dagurinn haldinn hátíðlegur í tíunda sinn um allt land, en einnig á erlendum vettvangi. Samfélagsmiðlar fyllast af myndum af fallegum hundum og sýna hversu fjölbreytt tegundin er þegar kemur að litaafbrigðum og feldgerð.

Í tilefni dagsins eru haldnir viðburðir og fyrir utan hátíðarhöld í Árbæjarsafni í Reykjavík má sérstaklega nefna viðburðinn hér í Skagafirði, sem nefnist „Mark Watson dagur“. Watson tengist ekki aðeins björgun íslenska fjárhundsins, heldur einnig uppbyggingu gamla bæjarins í Glaumbæ, sem var fyrsta byggðasafn Íslands.

Við munum byrja hátíðarhöldin hér hjá okkur á Lýtingsstöðum, þar sem við eigum von á gestum með hunda eftir hádegi. 
Frítt verður inn á Sögusetrið í dag. Síðan færum við okkur yfir í Glaumbæ til að gleðja gesti þar frá kl. 16–18. 

Einnig er von á heiðursgesti sem ég er mjög spennt að hitta. Viðstödd verður Patricia Putman, sem hefur helgað líf sitt hundarækt og þjálfun, þar sem íslenski fjárhundurinn hefur átt sérstakan sess. Pat er formaður fræðslunefndar dómara og fulltrúi AKC fyrir samtök íslenska fjárhundsins í Ameríku (ISAA). Hún vann með Mark Watson á fimmta áratugnum að bók hans „The Iceland Dog 874–1956“ og átti einnig stóran þátt í vali og innflutningi íslenskra hunda til Bandaríkjanna. Pat mun segja nokkur orð um Mark Watson og íslenska fjárhundinn í tilefni dagsins. Streymt verður frá erindi Pat á Facebooksíðu Byggðasafns Skagfirðinga.

Hundarnir okkar verða skreyttir í dag með íslenskum borða festum í hálsólina!

Mig langar að enda á fallegri tilvitnun sem ég las á samfélagsmiðlum í gær, en hún er úr Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness

„Hvernig sem allt veltist, eiga menn þó að minnsta kosti minningarnar um hunda sína, þær getur enginn tekið frá okkur!“

Njótið dagsins!


HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Sími: +354 893 3817
[email protected]

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin