Úti garmar geltu

Hero Image

12.11.2025Evelyn Ýr

Sarpur er menningarsögulegt gagnasafn þar sem má meðal annars finna mikið af fróðleik um þjóðhættir í formi spurningaskráa. 

Skrá #66 er tileinkuð hundinum, og þar má finna svör frá 71 viðmælanda. Þessi svör gefa góða hugmynd um hundamenningu (viðhorf til hunda, þjóðtrú, venjur) á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar. Skrásetningin fór fram árið 1987.

Ég hef gluggað mikið í þessa spurningaskrá #66 því hún er sannkallaður fjársjóður. Ein spurningin er til dæmis um algeng hundanöfn, og ég taldi 221 hundanafn sem kom fram í svörunum. Meira um það síðar.

Önnur spurning var um samheitin fyrir hunda:
"Greinið frá samheitum um hunda (hundur, hvutti, deli, búadeli, grey, garmur, rakki, seppi, skinn, héppi o.s.frv.). Segið frá afleiddum orðum, merkingu og merkingarmun (hundsspott, hundsskinn, garmsskinn, greyskinn, greyskarn o.s.frv.). Var orðið ,,klódýr" notað um hunda og ketti og jafnvel tófur sem samheiti? Voru orðin hrædýr, hrækvikindi stundum notuð um hund? "

Ég hef tekið saman nokkur svör:

  • Skammarorð: hundsspott.
  • Afleidd orð: hundsskinn, garmskinn, greyskinn, greyskarn
  • Garmur er notað í lítilsvirðingar- og vorkunnartón
  • Hvuttar var frekar haft um hvolpa. Gæluorð um hund voru t.d. garmskinn, greyskinn og greyskarn.
  • Hundsspottið er mér ókunnugt um, held það þýði að vera öðruvísi en hann ætti að vera, hundsskinnið, garmskinnið, greyskinnið eru vorkunar- eða gæluorð, greyskarnið gæti haft líka þýðingu en eins blandað lítilsvirðingu, en ef einhver var sagður vera hundtyrki merkti það að hann væri slæmur.
  • Ég kannast við flest þessi samheiti, hundur, hvutti, deli, búadeli, grey, garmur, rakki, seppi, skinn, héppi en hygg að klódýr og hrædýr hafi aðallega verið notuð af gömlu fólki og heyrist ekki lengur.
  • Orðin hvutti, aðallega um unga hunda s.s. hvolpa, rakki og seppi mjög algengt, en grey og garmur frekar sem gælunafn og afleiðing af þeim greyskinn og garmskinn ekki síður notuð við menn, sem vinahót
  • Um samheitin á hundum, sem upp eru talin í spurningaskránni s.s. hvutti, deli, búadeli, grey, garmur, rakki, seppi, skinn og héppi, voru öll notuð af gömlu fólki í minni bernsku að undanskyldu búadela, það hefi ég aldrei heyrt. Hundsspott, þá var einkum átt við hvolpa sem höfðu gert eitthvað til óþurftar. Orðið klódýr var samheiti á hundum og köttum. Þegar hundar komu heim illa útleiknir eftir langvarandi flæking var stundum sagt að hundshræið væri nú loksins komið heim.
  • Hrædýr og krækvikindi voru tófur (refir) en fyrir kom að það væri notað um flækingshunda eða hunda sem af einhverjum ástæðum sultu. Svo var oft talað til þeirra í gamni, sérstaklega af krökkum, grey, líka sagt seppi minn þegar verið var að gefa þeim í dallinn sinn: "Leptu nú þetta greyið." Oft voru flökkuhundar á ferðinni, horaðir og hungraðir, þá var oft sagt: "Það verður að gefa garminum."
  • Oft var sagt aumingja hræið eða hrækvikindið, ef eitthvað var að hundi.

Eins og sést hafa hundurinn og samheitin haft mikil áhrif á daglegt mál, og ætla ég að ljúka þessum pósti með tilvitnun í Jónas Hallgrímsson í kvæðinu Óhræsið:

Mædd á manna besta
miskunn loks hún flaug,
inn um gluggann gesta
guðs í nafni smaug
– úti garmar geltu,
gólið hrein í valnum –
kastar hún sér í keltu
konunnar í dalnum.

Mynd: Baldvin Jónatansson, frú og bústofn í Víðaseli árið 1910


HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Sími: +354 893 3817
[email protected]

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin