Hundar frá Sellátrum

Hero Image

01.05.2024Evelyn Ýr

Hausinn á mér er eiginlega fullur af nöfnum af hundum sem einhvern veginn tengjast og sem eru merkishundar og mér finnst þörf á að skrifa niður þessar upplýsingar og hugsanir mínar um þessa hunda. En hvar skal byrja?

Byrjum á Mark Watson. Hann flutti 8 hunda út til Kaliforníu, fjóra úr Breiðdal, einn úr Jökuldal, einn úr Jökulsárhlíð, einn úr Fossárdal og einn úr Blönduhlíð í Skagafirði.

Hundarnir sem Mark Watson fékk víða um land voru geymdir á Keldum og þaðan voru þeir fluttir úr landi. Samkvæmt skrifun Þórhildar Bjartmarz segir sagan að ráðsmaður á Keldum hafi átt sinn þátt í því að tíkurnar Pollý og Snúlla voru ekki sendar út en voru notaðar til undaneldis.

Birgir Kjaran, alþingismaður, sem var einn af stofnendum Hundaræktarfélags Íslands skrifaði grein um íslenska fjárhunda í Morgunblaðinu, árið 1969. Birgir skrifar: “ …þar (á Keldum) eru tvær tíkur, íslenzkar, sem Mark Watson mun hafa skilið eftir á sínum tíma: Önnur heitir Pollý og er fallega rauðbrún. Hin er svört með hvítan kraga og nefnist Snúlla.”

Birgir sjálfur átti hundinn Klóa frá Sellátrum en Klói var samkvæmt Birgi paraður við Pollý og Snúllu: “…Með þeim hefur Klói eignazt trúlega tæpt hundrað hvolpa, sem flestir hafa lifað og dreifzt víða um land, m.a. að Hesti í Borgarfirði og að Hólum. Niðjar þeirra eru og hundar Sveins Kjarvals og sá stofn, sem frú Sigríður Pétursdóttir á Ólafsvöllum á Skeiðum er nú að reyna að rækta. – Svo að mér er nær að halda, að Klói hafi líklega lagt vel sitt að mörkum til viðhalds íslenzka hundastofninum.” Þar sem hundahald var erfitt í þéttbýli fékk Birgir aðstöðu fyrir Klóa til þess að dvelja langdvölum að Keldum í Mosfellssveit.

Samkvæmt gagnagrunninum hefur Pollý átt 4 hvolpa í heild sinni og alla með Klóa.

Snúlla frá Tungu virðist hafa verið móðir Pollýar en Pollý er eina skráða afkvæmi hennar. Þannig að ekki er víst hvar þessir hundrað hvolpar eru sem Birgir nefnir.

En einn af afkvæmum Klóa var Kátur frá Keldum sem ég hef áður skrifað um en Kátur átti 53 hvolpa og flestir eða allir Ólafsvallahundar rekja ætt sína til hans. Kannski hefur Birgir átt við áhrif Klóa á ræktunina? Trúlega. Það má líka velta fyrir sér hvort skráningar á þessum upphafsárum skipulagðrar ræktunnar hafa alltaf verið réttar. Hver veit?

Það er allavega mjög áhugavert að lesa greinina hans Birgis og langar mig að skrifa nokkur orð um hunda frá Sellátrum en þaðan fékk hann Klóa sinn.

Birgir skrifar í Lesbók Morgunblaðsins 1969: “Um ætt og uppruna Klóa er þetta helzt að segja, eftir upplýsingum frá Davíð Davíðssyni bónda að Sellátrum, nú oddvita í Tálknafirði, en frá honum er Klói kominn. Þegar Davíð Davíðsson kom að Sellátrum árið 1940 eða 1941 voru þar tveir hundar. Annar gul tík með svartan kjaft og trýni og svarta hvarma. Mun hún hafa verið frá Stóra-Langadal. En hundurinn var frá Kvígindisfelli. Telur Davíð að kyn þetta hafi borizt vestur af Snæfellsnesi með manni, Ólafi Kolbeinssyni að nafni, sem hafi flutzt vestur um aldamót. Að sögn Davíðs hefur kyn þetta breiðzt út um Tálknafjörð, og er yfirleitt gult að lit (golsótt), jafnvel stöku sinnum hvítt eða mórautt með hvítar tær. Eyru vel uppistandandi, og hringuð rófa. Lundarfar telur hann skemmtilegt, blíðir, nokkuð viðkvæmir, góðir smalahundar og ágætir að elta uppi tófur. Þegar þeir þefi upp tófuspor verði þeir ógn spenntir og erfitt við þá að ráða. Renni bara í slóðina.”

Á undanförnum mánuðum hef ég skrifast á við Höskuld Davíðsson, einn af 12 systkinum frá Sellátrum og var gaman að heyra minningar hans frá æskuárum í Tálknafirði. Um hundana sagði hann mér: “Þeir skyldu tungumálið og gegndu því sem þeir voru beðnir að gera, svo sem að sækja fé í fjöllin. Bitu aldrei en höfðu samt gott lag á að láta rollurnar hlýða sér. Eiginleikar þeirra gengu sjálfkrafa milli kynslóða…þeir voru tilfinningaríkir og tóku einlæglega þátt í gleði okkar, og sorgum. Þeir borðuðu sama mat og við og voru bara hluti af fjölskyldunni.”
Tíkin Kollý var sérstaklega í uppáhaldi hjá Höskuldi og sendi hann mér stutta sögu og fullt af myndum sem hægt er að sjá hér.

Ég hef mikið velt fyrir mér hvort Kollý er tíkin Kola frá Sellátrum í gagnagrunnum en hún er skráð móðir Klóa. Kola er sögð fædd 1956, foreldrar hennar heita Tryggur og Snotra. Ég spurði Höskuld hvort það gæti passað og hvort hann man eftir þessum hundum Trygg og Snotru. Í sambandi við fæðingarár Kolu segir Höskuldur: “Í mínum huga finnst mér Kollý hafa verið til þegar ég fór að ganga. 1956 finnst mér svolítið seint, þá var ég 8 ára.” Hann ráðfærði sig við eldri systur sínar tvær en þau systkinin könnuðust ekki við nöfnin Tryggur og Snotra. Sigurlína systir Höskuldar, man eftir svokölluðum "fjárkaupmönnum" sem fóru um sveitirnar og keyptu riðufrítt fé, og í eitt skipti fengu þeir þrjá hvolpa líka. Þannig að skýringin "frá Sellátrum", getur staðist í mörgum tilfellum, en hvolparnir hafa oft farið óskýrðir til annarra eigenda.
Líklega er Kola ekki Kollý og auðvitað skiptir það ekki öllu máli en gaman er að spekúlera. Ég þakka Höskuldi og systrum hans fyrir framlag þeirra í að reka sögu hundanna frá Sellátrum.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun