Feldurinn

Hero Image

04.05.2025Evelyn Ýr

Feldur íslenska fjárhundsins er tvöfaldur, myndaður úr þeli og yfirhárum. Hann er þykkur og mjög veðurþolinn og hrindir vatni frá sér. Áferð feldsins á ekki að vera mjög mjúk, heldur fremur gróf.

Það kemur sér oft vel að feldurinn hefur þann eiginleika að vera sjálfhreinsandi, sérstaklega í drullutíð. Drullan dettur fljótt úr feldinum og hundurinn verður hreinn.

Hárafar getur verið tvenns konar: snöggt eða langt. Í ræktunarmarkmiðum FCI stendur:

"Snöggt hárafar:
Yfirhár eru fremur gróf en þelið þétt og mjúkt. Hár á trýni, kolli, eyrum og framan á fótum er styttra, en lengra á hnakka, hálsi, herðakambi, bringu og aftan á lærum. Skottið er þétthært og loðið, og lengd skotthára í samræmi við hárafar hundsins.

Langt hárafar (lubbar):
Yfirhár eru lengri og fremur gróf, en þelið þétt og mjúkt. Hár á trýni, kolli, eyrum og framan á fótleggjum er styttra, en mun lengra á hnakka, við eyru, á hálsi, herðakambi, bringu, aftan á framfótum (fanir) og aftan á lærum. Skottið er þétthært, mjög loðið og lengd skotthára í samræmi við hárafar hundsins."

Snögghærðir íslenskir fjárhundar eru sjaldgæfari en síðhærðir.

Það er stundum talað um að snögghærðir hundar fái verri dóma á sýningum en þeir síðhærðu. 
Mörgum þykja síðhærðir hundar fallegri en þeir snögghærðu, en smekkur fólksins er auðvitað misjafn. 
Snögghærðir hundar eru oft kallaðir „gamla týpan“. Ég heyrði einu sinni fullorðinn bónda segja að bændur vildu frekar hafa snögghærða hunda, því snjórinn festist síður í þeim. Lubbar þurfti stundum að klippa snjóbolta úr feldinum, því ekki var hægt að ráða við þá.

Mín reynsla er þó sú að síðhærður hundur með grófa áferð, eins og Sómi minn, lendir aldrei í vandræðum í snjó. Það festist aldrei neitt í honum. Hins vegar er feldur Hraundísar minnar með mýkri áferð og stundum festist snjór á löppunum hennar.

Það er mjög mikilvægt að báðar gerðir hárafars viðhaldist í stofninum.

Ég hef lesið áhugaverða umræðu frá bandarísku konunni Scotti Harvey, sem veitti mér góðfúslegt leyfi til að vísa í færslu hennar. Hún skrifar:

„Þegar við reynum að varðveita eiginleika feldsins sem verndar hundana okkar fyrir veðri og vindum í norrænu loftslagi og hrjóstrugu landslagi, getur innsýn í stofnerfðafræði verið mjög upplýsandi.
Í fyrstu ferð minni til Íslands var ég vöruð við því að það gæti haft áhrif á gerð feldsins að para saman tvo síðhærða hunda. Mikilvægt væri að varðveita snöggt hárafar til að tryggja gæði og gerð hins lengra hárafars.“

Scotti hvetur til þess að erfðagreina fleiri hunda, til að fá skýrari mynd af stöðu stofnsins og því hvort við séum að missa snögghærða hunda úr honum. Rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til að hlutfall síðhærðra hunda sé svo ríkjandi að það kunni að styttast í að snöggt hárafar hverfi.

Þó að ég eigi sjálf síðhærða hunda, dáist ég alltaf að snögghærðum hundum og vona að ræktendur vinni markvisst að því að viðhalda þessu hárafari.

Ég læt fylgja með mynd af fallegum snögghærðum hundi frá Danmörku, Nicu. Myndin er tekin af Blebea.photography.


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

HAFA SAMBAND

Sími: +354 893 3817
[email protected]

HEIMILISFANG

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Ísland

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin