24.06.2025Evelyn Ýr
Núna eru liðin fjórar vikur síðan við opnuðum Sögusetur Íslenska fjárhundsins og óhætt er að segja að viðtökurnar hafa verið frábærar.
Margir hafa nú þegar skoðað setrið, bæði í skipulögðum hópferðum og einnig sem einstaklingar.
Við finnum fyrir þakklæti Íslendinga fyrir að þjóðarhundurinn og sagan hans fái rými og stað til að vera sýnileg og varðveitt.
Nokkrir erlendir ferðamenn hafa komið sérstaklega til að sjá sýninguna, því þeir eiga – og jafnvel rækta – íslenska fjárhunda í sínu heimalandi.
Daglega koma ferðamenn til okkar til að upplifa íslenska hestinn og eru oft mjög hissa þegar þeir komast að því að það er ekki bara til íslenskur hestur heldur líka íslenskur hundur. Margir þeirra nýta tækifærið til að skoða setrið fyrir eða eftir reiðtúrinn og gestabókin fyllist af hrósandi orðum.
Við höfum fengið frábæra umfjöllun í íslenskum og erlendum miðlum.
Morgunblaðið birti flotta grein strax eftir opnun (sjá mynd).
Félagsrit HRFÍ, Hundasamur, kom með grein (sjá hér).
SSNV, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, fjallaði um opnunina en verkefnið fékk tvisvar styrk úr Uppbyggingarsjóði NV.
Héraðsfréttablaðið Feykir birti grein um Sögusetrið og Bændablaðið var auðvitað líka með puttann á púlsinum.
Heimir Karlsson tók viðtal við mig í morgunútvarpinu á Bylgjunni í gær og hægt er að hlusta á þáttinn hér.
Fréttamaður frá RÚV á Norðurlandi er væntanlegur í dag.
Á samfélagsmiðlum birtist umfjöllun frá Markaðsstofu Norðurlands og á „Iceland Route 1 and Beyond“.
Danska félag eigenda íslenska fjárhundsins birti grein í félagsritinu sínu og grein hjá Kennel Club í Bretlandi er væntanleg.
Við erum afar þakklát fyrir viðtökurnar og alla umfjöllun um Sögusetur Íslenska fjárhundsins okkar.
Sómi, Hraundís og Fönn taka alltaf vel og brosandi á móti öllum gestum og fréttamönnum og gera sitt til að standa vörð um ímynd þjóðarhundsins.
Sögusetrið er opið alla daga frá klukkan 9 til 18.
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Sími: +354 893 3817
[email protected]