Örlög Glóa Grænlandsfara

Hero Image

13.05.2024Evelyn Ýr

Ég rakst á mynd um daginn með upplýsingum um leiðangur til Grænlands sem ég hafði reyndar heyrt um áður en aðallega í sambandi við notkun íslenska hestsins í því samhengi. Athygli mína vakti íslenskur hundur á myndinni, og ég ákvað að kynna mér þessa sögu betur.

Eftir stutta leit fann ég frásögn Vigfúsar Sigurðssonar af ferð hans með kapt. J. P. Koch, dr. Alfred Wegener og Lars Larsen í einu erfiðasta umhverfi veraldar í danska leiðangrinum, 1912–1913, til Dronning Louise Land í norð-austur Grænlandi og þvert yfir Grænlandsjökul til Kangersuatsiaq á vesturströndinni, sem þá hét Pröven. 

Ég náði mér í rafbókina "Um þvert Grænland: Lífsbarátta og landkönnun með J.P. Koch & Alfred Wegener" en fann einnig frumútgáfu í fornbókasölu sem ég keypti.

Leiðangur þessi er óvenjulegur því leiðangursmenn nýttu íslenska hesta til þess að draga sleða með búnaði og birgðum frá ströndinni að jöklinum og þvert yfir hábungu Grænlands til vesturstrandarinnar. Einnig framkvæmdu þeir vísindalegar mælingar. Dr. Alfred Wegener hafði þá þegar birt vísindagreinar um landrekskenningu sína sem síðar átti eftir að valda straumhvörfum í skilningi á hreyfingu jarðskorpunnar.

Með í þessum leiðangri var íslenski hundurinn Glói: 
"Að kvöldi hins 6.júlí (1912) var allt tilbúið. Hestarnir komnir á skip og búið um þá á þilfarinu. Við höfðum fengið nýjan ferðafélaga, lítinn gulan hund, með hvíta bringu, sem gekk undir nafninu Glói. Ekki leit út fyrir að hann væri nokkur fyrirmynd hunda að viti, en það skipti minnstu máli, hann átti aðeins að vera til þess að auka á félagsskapinn...."

Í bók Vigfúsar er Glói oft nefndur og sagt frá allskonar uppákomum, t.d. þegar sauðnaut var drepið til að hafa kjöt handa Glóa, þegar Glói varar við hvítabirni, þegar hann týndist eftir jökulhlaup, hvernig bælið hans var útbúið og svo hvernig Glói bjargaði fjórmenningunum frá hungursdauðum þegar honum var slátrað.

Ég mun örugglega taka saman nokkrar frásagnir um Glóa og fleiri myndir sem ég fann til að búa til sér sögu um hann í söguhlutanum á þessari vefsíðu. Ég er svo heilluð af sögunni af þessum hundi og mér finnst að það þarf að gera hana sýnilega.

Það er líka hægt að lesa dagbækur Alfred Wegeners og frásagnir hans um Glóa.

Mynd: Alfred Wegener


SAMFÉLAGSMIÐLAR

HAFA SAMBAND

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

SAMFÉLAGSMIÐLAR->

HAFA SAMBAND->

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
Phone: +354 893 3817
[email protected]

Soknaraetlun