

Þegar haustar er gott að taka stöðuna. Það hefur staðið til í dálítinn tíma, en nú virðist veturinn vera kominn. Snjór kingur niður í flestum landshlutum, þó minnstar snjókomur séu hér fyrir norðan. Myndin hér fyrir ofan lýsir vel því sem gerðist á haustdögum. Í septemberútgáfu tímaritsins "Kennel Gazette" frá breska hundaræktafélaginu The Kennel Club birtist þriggja blaðsíðna grein með viðtali við mig og fullt af myndum af opnun Söguseturs Íslenska fjárhundsins. Þetta er frábært, sérstaklega í ljósi þess að áhugi á íslenska fjárhundinum hefur aukist verulega í Bretlandi eftir að tegundin var viðurkennd af félaginu á þessu ári. Nú er loksins hægt að rækta og sýna íslenska fjárhunda í Bretlandi. Í september tók Darren Adam frá RÚV English Radio aftur viðtal við mig. Í þetta sinn fengum við að ganga saman um Sögusetrið og ræða það sem fyrir augu bar. [Hægt er að hlusta á viðtalið hér.](https://www.ruv.is/english/2025-09-29-ruv-english-radio-the-icelandic-sheepdog-heritage-centre-454737) Á meðan ég man eftir því, var innslag í kvöldfréttum RÚV í sumar sem ég átti eftir að segja frá. [Hægt er að horfa á fréttina hér.](https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-06-29-fannst-ordid-longu-timabaert-ad-kynna-islenska-fjarhundinn-og-opnadi-safn-446993) Rannsóknarfélagi minn í Danmörku, Jørgen Metzdorff ([www.naskur.dk](http://www.naskur.dk)), færði mér höfðinglega gjöf: annað eintak af bókinni hans Mark Watson, "The Iceland Dog 874-1956" sem ég er mjög þakklát fyrir. Einnig fékk ég bókina "Hundurinn minn" eftir Watson sem ég hef leitað lengi að og bókina "Íslenski fjárhundurinn" eftir Gísla Pálsson. Jørgen gaf mér líka frímerki í safnið mitt. Takk, Jørgen. Þessar gjafir koma sér vel! Ég skrifaði grein fyrir þýska tímarit félagsins "Deutsch-Isländische Gesellschaft e.V Köln" og "Freunde Islands e.V. Hamburg" um upphaf og framkvæmd verkefnisins um íslenska fjárhundinn. Við það tilefni tók ég saman tölur og komst að því að um 2.500 manns hafa heimsótt Sögusetrið frá opnun í maí til loka septembers. Þetta er bara nokkuð gott. Talan samanstendur af fólki sem kom sérstaklega til að sjá sýninguna, sem og þeim sem komu óvænt við og skoðuðu sýninguna á leið í hestaleigu eða meðan á dvöl þeirra hjá okkur stóð. Allir rútuhópar fá aðgang að sýningunni. Kannski skoðuðu ekki allir sýninguna mjög ítarlega, en ég hef allavega kynnt íslenska fjárhundinn fyrir öllum þessum fjölda. Í síðustu viku komu um 70 manns í heimsókn í tilefni uppskeruhátíðar ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Það var gaman að kynna Sögusetrið sem nýjung fyrir kollegum okkar á Norðurlandi. Hvað er framundan? Að klára nokkur verk í húsinu, sem fékk nafnið Hraunkot (í höfuðið á tíkinni minni, Hraundísi), setja upp fleiri myndir og búa til möppu með öllum blaðagreinum frá því í sumar. Einnig þarf að yfirfara annað sem mér hefur áskotnast í sumar. Ég er með fleiri hugmyndir til að bæta sýninguna, en það krefst mikillar vinnu. Ég segi frá því þegar þar að kemur.

Í síðustu viku fengum við viðurkenningu frá Sveitarfélagi Skagafjarðar fyrir „Einstakt framtak" – Sögusetur íslenska fjárhundsins. Í umsögninni segir: "Eftir tveggja og hálfs árs rannsóknar- og undirbúningsvinnu opnaði fjölskyldan á Lýtingsstöðum Sögusetrið, Sögusetur íslenska fjárhundsins í sérbyggðu húsnæði í maí á þessu ári. Um er að ræða einstaka sýningu um sögu íslenska fjárhundsins sem hefur það markmið að varðveita og miðla upplýsingum um þessa séríslensku hundategund, gefa henni rými og gera hana sýnilega og aðgengilega. Á setrinu getur fólk fræðst um sögu hunda á Íslandi, allt frá landnámi til nútímans, um þjóðtrú og einnig sögur af frægum hundum. Einnig er hægt að horfa á alls kyns myndbönd og heimildarmyndir, skoða gamlar ljósmyndir og koparstungur, fletta í gegnum bækur, lesa gömul skjöl og bréf og uppgötva mýkt spunnins bands úr hundahári. Þrír íslenskir fjárhundar á bænum mynda skemmtilega móttökunefnd. Sögusetur íslenska fjárhundsins hefur vakið mikinn áhuga bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna, auk þess sem fjölmiðlar hafa fjallað um það. Sögusetur íslenska fjárhundsins er lifandi vitnisburður um hvernig ástríða, virðing og sjálfbærni geta sameinast í einstöku framtaki, sem varðveitir menningararf fyrir komandi kynslóðir." Við erum afar stolt af þessari viðurkenningu og þökkum kærlega fyrir okkur.

Sögusetur Íslenska fjárhundsins hefur nú verið opið í rúmlega þrjá mánuði og því kominn tími til að líta aðeins yfir hvernig fyrsta sumarið hefur gengið. Í stuttu máli hafa viðtökurnar farið langt fram úr væntingum. Mér þykir óskaplega vænt um hve Íslendingar hafa verið duglegir að heimsækja sýninguna og sýnt bæði þjóðarhundinum og sögu hans mikinn áhuga. Fjöldi fallegra (fjár)hunda kom með eigendum sínum í heimsókn – og voru þeir auðvitað velkomnir líka. Það sem stóð upp úr hjá erlendum gestum var að fæstir þeirra vissu yfirhöfuð af tilvist íslenska fjárhundsins. Mér er óhætt að segja að það hafi tekist vel að kynna þjóðarhundinn fyrir hundruðum erlendra gesta sem komu fyrst og fremst til að upplifa hinn íslenska hest. Margir voru mjög hissa á að hafa aldrei heyrt af þessari séríslensku hundategund. En það komu líka gestir sem þekktu hana vel, áttu sjálfir íslenska fjárhunda og jafnvel rækta þá í sínu heimalandi. Í sumar hafa átt sér stað mörg skemmtileg og áhugaverð samtöl – og jafnvel augnablik sem gáfu gæsahúð. Mig langar sérstaklega að nefna heimsókn Rafns Jónssonar, sem [árið 1984 kærði þáverandi fjármálaráðherra Albert Guðmundsson](https://www.fjarhundur.is/is/blog/hundabann-i-reykjavik-i-60-ar) fyrir ólöglegt hundahald eftir að hafa opinberað hundahaldið í sjónvarpi. Rafn var ekki síður hissa að sjá nafnið sitt á sýningunni en ég var að fá hann í heimsókn. Önnur eftirminnileg heimsókn var sú Patricia Putmans í tengslum við Dag íslenska fjárhundsins. Patricia, eða Pat, vann á sínum tíma með Mark Watson og aðstoðaði hann bæði við að flytja íslenska fjárhunda til Bandaríkjanna árið 1955 og við að safna efni í bókina [_The Iceland Dog 874–1956_](https://www.fjarhundur.is/is/blog/bokagjof). Að hitta þessa hressu konu, sem lét draum sinn rætast með því að koma til Íslands og heimsækja Glaumbæ á 84. aldursári, verður mér ógleymanlegt. Nú styttist í haustið og sumarið er að líða undir lok. Fram undan eru haustverk og langur vetur sem ég hlakka til að nýta í áframhaldandi rannsóknarvinnu og til að safna fleiri sögum. Markmið ársins var að opna sýninguna – og það tókst afar vel. Nú tekur við næsta skref: að byggja setrið enn frekar upp. Sögusetrið verður opið daglega út september, en eftir það eftir samkomulagi. Mynd: Patricia Putman heldur á bókinni _The Iceland Dog_ fyrir framan upplýsingaspjald um Mark Watson á Degi íslenska fjárhundsins, 18. júlí 2025.
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
561 Varmahlíð
Sími: +354 893 3817
[email protected]


