

Eitt af verkefnum sem við fengum styrk fyrir á árinu 2026 er að búa til myndagagnabanka með litaafbrigðum íslenska fjárhundsins. Til þess höfum við ráðið ljósmyndara sem er sérhæfður í myndatöku af hundum til að fá myndir í bestu gæðum og við samræmdar aðstæður. Við munum væntanlega bjóða upp á 4 myndatökur á næstu mánuðum, tvær myndatökur á Norðurlandi og tvær á Suðurlandi. Við viljum fá myndir af öllum litaafbrigðum íslenska fjárhundins og þess vegna er nauðsynlegt að skrá sig í myndatöku. Við munum síðan velja úr þeim hundum sem eru skráðir til að ná sem flestum litum og bjóða í myndatöku á ákveðnum dagsetningum bæði á Norðurlandi og á Suðurlandi. Í lok verkefnisins setjum við upp litagagnabanka hér á þessa vefsíðu sem mun nýtast öllum þeim sem hafa áhuga á að skoða liti tegundarinnar og einnig verður settur upp skjár á Sögusetrinu til að fletta í gegnum gagnabankann. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Ljósmyndarinn er Carolin Giese hjá [LinaImages.](https://linaimages.com/gallery/dogs/) Viltu eiga möguleika til að taka þátt í myndatöku með þínum hundi og fá tvær hágæða stafræna myndir til eigin notkun? Til þess að taka þátt þarf hundurinn að vera: hreinræktaður íslenskur fjárhundur með ættbók frá HRFÍ hafa náð 12 mánaða aldri vera "í feldi" við myndatöku og í góðu líkamlegu formi (ekki of grannur né of feitur) hafa upprétt eyru og fallegt skott má vera síðhærður eða snögghærður geta stillt sig upp annaðhvort á náttúrulegan hátt í lausagöngu eða við sýningartaum (sýningartaumurinn verður fjarlægður úr myndinni við eftirvinnslu) Skráning: Vinsamlegast [fylltu út eyðublaðið](https://form.jotform.com/260242659643359) hér ef þú hefur áhuga á þátttöku.

Ég er alltaf að leita að gömlum myndum þar sem sést hunda í. Fyrir nokkru síðan rak ég augað í þessa fallega mynd sem ég leyfi mér að birta hér. Vikulega birtist gömul ljósmynd á [Akureyri.net](https://www.akureyri.net/is/gamla-myndin) í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri til að spyrjast fyrir um upplýsingar hvar og hvenær myndin er tekin, og hver væri höfundur. Þessi mynd sýnir gamalt torfbæ eða réttara sagt frekar illa farin útihús. Þrír drengir (eða tveir drengir og einn maður?), einn af drengjunum á hesti og hundur standa fyrir utan. Myndin birtist í ágúst 2025 og engar upplýsingar hafa borist. Ef einhver hér kannast við þessa mynd eða staðhátt getur viðkomandi haft samband við [Akureyri.net](https://www.akureyri.net/is/gamla-myndin/250-228-2025-veistu-hvar-thetta-er). Ef einhver sem les þetta á gamla myndir í fjölskyldualbúm eða upp á vegg sem sýna hunda í gamla daga og er tilbúið að leyfa mér að fá (stafrænt) afrit af þeim - hafðu endilega samband við mig. Það er svo lítið til af myndum og mig langar til að gera fleiri myndir af hundum sýnilegar og líka að varðveita þær.

Eitt af nýjum verkefnum okkar var hleypt af stokknum í gær. Núna erum við með [gagnabanka með íslenskum hundanöfnum](https://www.fjarhundur.is/is/names) á þessari vefsíðu. Nafnabankinn er alls ekki tæmandi, en tæplega 700 nöfn eru hægt að finna í honum nú þegar. Aðalheimildir fyrir bankann eru bókin _Íslenski fjárhundurinn_ eftir Gísla Pálsson (Bókaútgáfan Hof, 1999) sem og [spurningaskrá númer 66 Þjóðminjasafnsins](https://sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=531295) (virðist ekki aðgengileg í augnablikinu) um hunda, en þar fann ég meira en 200 nöfn sem komu ekki fram í bók Gísla. Til þess að finna útskýringar og endurbæta efnið nýtti ég mér nafnabanka Worldfengs sem er [Upprunaættbók íslenska hestsins](https://www.worldfengur.com/), [Íslenska orðsifjabók](https://ordsifjabok.arnastofnun.is/) eftir Ásgeir Blöndal Magnússon (1909–1987) og [Ritmálssafn Orðabókar Háskólans](https://ritmalssafn.arnastofnun.is/), Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ég vona að bankinn nýtist hundaræktendum, hundaeigendum og öðrum áhugasömum til fræðslu og skemmtunar. Nafnabankinn verður uppfærður og endurbættur eftir þörfum, og langar mig að biðja fólk að senda mér ábendingar um fleiri nöfn, viðbætur við útskýringar, leiðréttingar eða ef það rekst á rangar upplýsingar. Ég vil samt benda á það að ég mun einungis bæta við íslenskum nöfnum eða nöfnum sem eiga sér sögu í málfari eða venju Íslendinga. Nöfnin sem koma fram í nafnabankanum eins og hann er í dag eru öll frá því fyrir aldamótin 2000, því bókin hans Gísla var gefin út 1999 og spurningaskrá Þjóðminjasafnsins byggist á viðtölum frá 1987. Ég ákvað samt að sleppa nöfnunum Hitler, Stalín og Frankó sem tilheyra nútímasögu og tengjast stríðsglæpum.
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
+354 893 3817
[email protected]


