Styrkir 2026

Hero Image

22.12.2025Evelyn Ýr

Árið 2025 er senn á enda, viðburðaríkt ár þar sem við náðum þeim stóra áfanga að opna Sögusetur íslenska fjárhundsins hér hjá okkur á Lýtingsstöðum í Skagafirði.

Með opnun sögusetursins hefur skapast vettvangur þar sem saga íslenska fjárhundsins er varðveitt og gerð aðgengileg öllum. Það er von mín að sögusetrið muni nýtast þeim sem hafa áhuga á að kynna sér sögu hundsins sem hluta af íslenskum menningararfi, sem og stöðu hans í nútímanum.

Sýningin sjálf er þó ekki það eina sem skiptir máli, heldur einnig þessi vefsíða sem áhugafólk getur nýtt sér hvar sem er í heiminum. Framtíðarsýn mín er að byggja vefsíðuna áfram upp, smátt og smátt, svo hún verði að umfangsmiklum og aðgengilegum gagnagrunni um þjóðarhundinn okkar. Ég segi ekki að hér verði að finna „allt“ sem honum viðkemur, því það er ógerningur að finna og safna öllum upplýsingum. Ég mun hins vegar gera mitt besta og vona að síðan nýtist sem slíkur gagnagrunnur. Í því samhengi er við hæfi að minnast stuttlega á tölfræði síðunnar.

Frá því að vefsíðan fór í loftið 3. júní 2023 hefur hún fengið yfir 38.400 heimsóknir. Meðaltími hverrar heimsóknar er ein mínúta og 55 sekúndur, sem telst mjög gott. Vinsælustu bloggfærslurnar eru „Hundabann í Reykjavík í 60 ár“ (á íslensku og ensku), „Mark Watson – bjargvættur íslenska fjárhundsins“ (á ensku) og „Uppruni íslenska hundsins“ (á íslensku).
Af heimsóknum koma 51% frá Íslandi, 19% frá Bandaríkjunum, 10% frá Þýskalandi og 3% frá Svíþjóð, Bretlandi, Singapúr, Danmörku og Kanada.

Hvað er framundan?

Hugmyndin um sýningu um sögu þjóðarhundsins hefði aldrei orðið að veruleika nema með þeim góðu styrkjum sem verkefnið hefur fengið í gegnum árin. Það er því sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að okkur hafa borist jákvæð svör um frekari styrki fyrir næsta starfsár, bæði úr Uppbyggingarsjóði SSNV og Menningarsjóði KS. Ég er afar þakklát fyrir þennan stuðning og velvild. Þegar nýtt ár gengur í garð mun ég segja nánar frá þeim verkefnum sem unnið verður að á næstunni og snúa bæði að sýningunni og vefsíðunni.

Um leið og ég óska ykkur gleðilegrar jólahátíðar og gæfuríks komandi árs, vil ég þakka fyrir allan þann stuðning og aðstoð sem hefur gert þetta verkefni að veruleika, sem og fyrir frábærar viðtökur.

Jólakveðjur frá Lýtingsstöðum,
Evelyn Ýr og fjölskylda ásamt hundum


Hafa samband

Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
+354 893 3817
[email protected]

Fylgdu okkur

SoknaraetlunStjórnarráðRoyal Canin