
31.10.2025Anna Kristín og Gunnar Þór
Huldudals Smali aka Loki

Loki var síðasti hvolpurinn til að fá heimili úr gotinu. Þegar við fórum að skoða hann þá var það varla hægt þar sem hann var gríðalega aktívur og vildi lítið láta halda á sér. Þurftum við að láta okkur nægja að skoða systur hans sem var keimlík honum í útliti. Loki kemur úr Huldudalsræktun sem er í Gufudal, foreldrar Loka voru Huldudalds Heba og Stjörnuljósa Hugleikur.

Loki var nú ekki auðveldasti hvolpurinn en leikgleðin og hversu viljugur hann var varð mögulega ástæða þess að honum gekk vel í Björgunarhundasveitinni. Hann var gjarnan kallaður litli djöfull sem var nokkuð gott viðnefni þar sem hann var ekki stærsti hundurinn en það lét hann sko ekki hindra sig og óð áfram og gaf ekkert eftir. Dæmi um það er þegar hann gróf yfir meters holu liggjandi á hlið.

Gunnar annar eigandinn og Loki fóru um víðan völl í útköllum og æfingum á vegum björgunarhundasveitarinnar (BHSÍ) enda voru þeir A-útkallsfélagar bæði í svokallaðri víðavangsleit og snjóflóðaleit.

Að þjálfa björgunarhund krefst mikils tíma og skuldbyndingar, að loknu 3-5 ára þjálfun þarf að viðhalda þjálfuninni og taka endurtektarpróf á hverju ári.

Það er ekki algengt að nota íslenska fjárhundinn í björgunarstarf en hann Loki og nokkrir aðrir hafa sýnt að það er svo sannarlega hægt.

Eins og fyrr sagði þá höfðu Loki og Gunnar farið um víðan völl í björgunarleiðangra og höfðu þeir farið amk 3 sinnum með þyrlu Landhelgisgæslunnar í útköll og þar með talið í snjóflóðin á austfjörðum árið 2023 þar sem þeir dvöldu til að vera nær ef annað snjóflóð myndi falla í byggð. Þeir gistu þar ýmist í fjöldahjálparstöð eða varðskipi í nokkra daga.

Það hefur oft reynt á samband hunds og manns og má þar nefna þegar þeir félagar tóku próf í Tindastól í skafrenning og engu skyggni og náðu þar á ótrúlegan hátt að standast úttektina þar sem Gunnar þurfti að leggja allt sitt traust á Loka og að hann finndi hvort þeir væru á réttri leið, sem hann að sjálfsögðu var.

Árið 2022 hlaut Loki svo viðurkenningu fyrir að vera leitar og björgunarhundur ársins á vegum Deild íslenska fjárhundsins.

Þó að Loki hafi verið glæsilegur björgunarhundur þá var hann fyrst og fremst fjölskylduhundur. Loki var mjög barngóður enda sóttu börn mjög í hann þar sem eitt besta kennimerki íslenska fjárhundsins er brosið þeirra sem gerir þá einstaklega aðlaðandi og vinalega.

Loki var svo sannarlega framúrskarandi hundur og skilur hann eftir stórt skarð í hjörtum okkar og er víst að hann var engum öðrum líkur.

f.23.10.2017 d.01.09.2025
Eigendur Gunnar Þór Kristinsson og Anna Kristín Atladóttir
Lýtingsstaðir, 561 Varmahlíð.
+354 893 3817
[email protected]


